Þörf er á heildarsýn yfir verklag á uppsetningu skilta meðfram vegakerfi Íslands. Í ljósi fjölgunar erlendra ferðamanna þarf að gefa gaum að notkun erlends texta á umferðarskiltum og á þjónustu- og upplýsingamerkjum, og hvort og í hvaða tilvikum það sé nauðsynlegt að nota erlendan texta á skilti.
Úttekt á umferðarskiltum hérlendis frá árinu 2014 gefur til kynna að margt megi bæta og að skilti séu oft misvísandi fyrir erlenda ferðamenn (Birna Hreiðarsdóttir, 2014). Aftur á móti verður einnig að horfa til náttúru- og menningarverðmæta ásamt upplifun af umhverfi og náttúru Íslands, og því mikilvægt að til séu skýr viðmið um heimildir fyrir uppsetningu skilta og notkun erlends texta á þeim.
Mörk milli þjónustuvegvísunar og auglýsinga þurfa einnig að vera skýr. Fordæmi eru fyrir því hérlendis að nöfn og merki (lógó) fyrirtækja séu sett á vegvísa. Ekki er hægt að gera einu fyrirtæki hærra undir höfði en öðru og tilgangur vegvísunar er í grunninn að aðstoða fólk við að rata. Hins vegar er ljóst að á vegum þar sem þjónusta er af skornum skammti getur það hjálpað fólki að fá upplýsingar um gerð og staðsetningu þjónustu meðfram veginum.
Hérlendis hefur mikið verið rætt um skilti sem annað hvort eru ekki til staðar við ferðamannastaði eða eru óskiljanleg erlendum ferðamönnum sem leiðir af sér hættur og jafnvel slys. Í þessu verkefni verða ekki tekin fyrir hættu- og aðvörunarskilti þar sem tíðkast hefur að hafa þau á íslensku og á ensku. Bæta má ýmislegt í þeim efnum en vísað er í fyrrgreinda skýrslu frá 2014 sem rekur þessi vandamál (Birna Hreiðarsdóttir, 2014). Mikilvægt er að nota tákn á slíkum skiltum sem eru alþjóðleg og lýsandi.
Í verkefninu var aflað upplýsinga um reglur og afstöðu Norðurlandanna; Svíþjóðar, Noregs og Danmörku, til eftirfarandi þátta:
► Hlutverk umferðarskilta í varðveislu og miðlun menningarverðmæta
► Notkun tungumála á umferðarskiltum
► Reglur um vegvísa
► Afstöðu vegayfirvalda til auglýsinga meðfram vegum
VSÓ ráðgjöf