Samgöngur eru veigamikill þáttur í skipulagi og hafa áhrif á hið skipulagða umhverfi og notendur þess. Auk þess að hafa áhrif á umferðarmagn, umferðaröryggi og hljóðvist, hefur samgönguskipulag áhrif á lýðheilsu og lífsgæði og þar spila vistvænar og virkar samgöngur mikilvægt hlutverk. Stefna um samgöngur á hverju skipulagssvæði hefur áhrif út fyrir skipulagið sjálft í flestum tilvikum. Það hversu vel skipulagið styður við sjálfbærar samgöngur hefur áhrif á samgönguvenjur fólks sem svo hafa áhrif á aðliggjandi samgöngukerfi og svæði. Þannig getur vöntun á aðstöðu og aðgengi fyrir vistvænar og virkar samgöngur (t.d. göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur) haft þau áhrif að notendur hafa lítið val um annað en notkun bíls, sem hefur áhrif á stærð aðliggjandi samgönguæða og þannig á samgöngukerfið í heild og aðra skipulagsreiti. Við gerð þessara leiðbeininga hefur verið horft til samgöngumats (Transport Assessment) og ferðavenjuáætlunar (Travel Plan) að breskri fyrirmynd. Í Englandi gefur breska samgönguráðuneytið, Department for Transport (DfT), út leiðbeiningar um gerð slíks mats og áætlunar, sem eru leiðir til að meta og draga úr neikvæðum áhrifum af samgöngum og til að styðja við sjálfbærar samgöngur. Í BREEAM Communities sjálfbærnimatskerfinu er krafa um gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlunar, þar sem við undirbúning skipulagsvinnu, þ.e.a.s. á frumstigi verkefnis, er gerð krafa um samgöngulega greiningu til að samgöngur í skipulaginu byggi á sjálfbærum lausnum eins og kostur er. Nánar má lesa um bakgrunnsvinnu þessara leiðbeininga í skýrslunni „Samgöngumat – skýrsla“ frá 2022 sem unnin var fyrir Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborg og Loftslagssjóð samhliða þessum
leiðbeiningum. Mælt er með að vinna við gerð ferðavenjuáætlunar og samgöngumats hefjist eins snemma og mögulegt er á skipulagsstigi og vinnist jöfnum höndum samhliða skipulagsvinnu þar sem annað getur haft áhrif á hitt. Vinna ætti þessi skjöl sérstaklega fyrir hvert svæði þar sem taka þarf tillit til aðstæðna á hverjum stað, og vinna þau fyrir alla uppbyggingarreiti sem framkalla töluvert magn ferða. Mat á því hvað er töluvert magn ferða þarf að fara fram hjá viðkomandi sveitarfélagi og fyrir hvern uppbyggingarreit fyrir sig. Til dæmis getur verið lægri þröskuldur um hvað telst töluvert magn ferða ef það samgöngukerfi sem er til staðar á umræddu svæði er þegar hlaðið en hærri þröskuldur ef uppbyggingin hefur aðgang að hágæða almenningssamgöngum og innifelur stefnu um takmörkun á bílastæðafjölda. Á svæðum þar sem engir innviðir eru til samgangna aðrir en þjóðvegur er eðlilegt að þröskuldurinn sé lágur enda þörfin þá oft brýn á uppbyggingu innviða fyrir vistvæna og örugga ferðamáta. Tilgangur þessa leiðbeininga um gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlunar er að stuðla að því að samgöngugreiningar verði gerðar ítarlegar og að þær verði gerðar á öllum ferðamátum, og að sett sé fram skýr stefnumörkun og aðgerðir fyrir alla ferðamáta til að bæta sjálfbærni samgangna. Einnig, að gefa leiðbeiningar um hversu miklar samgöngugreiningar eru æskilegar miðað við stærð og umfang skipulagsverkefnis.
Ólöf Kristjánsdóttir, Cecilía Þórðardóttir
Mannvit