Mannvit sótti, árið 2015, um styrk í rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar með það meginmarkmið að meta hvort slysatíðni á Reykjanesbraut, milli Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar, hafi breyst í kjölfar breytinga á lýsingu brautarinnar árið 2011.
Töluvert hefur verið rætt um lýsingu á Reykjanesbraut undanfarin ár. Sérstaklega eftir að ákveðið var, árið 2011, að slökkva á lýsingu annars hvers ljósastaurs í sparnaðarskyni. Ekki hefur verið skoðað sérstaklega hvort slysatíðni hafi breyst í kjölfarið en rætt hefur verið um að lýsing geri akstur í myrkri öruggari. Almennt eru þó mjög skiptar skoðanir hvað það varðar.
Verkefnið snýst um að afla upplýsinga og tölfræði varðandi slysatölur á því svæði Reykjanesbrautar þar sem lýsing var minnkuð. Einnig verður lagt mat á þróun umferðarhraða fyrir og eftir breytingar á lýsingu vegarins. Þá verður gerð samantekt á erlendum rannsóknum hvað varðar breytingar á lýsingu þjóðvega. Að endingu verður greint með viðurkenndu tölfræðilegu prófi hvort breytingar á lýsingu Reykjanesbrautar hafi haft marktæk áhrif á umferðaröryggi vegfarenda. Einnig verða kannaðir vegkaflar utan þess svæðis sem minnkun lýsingar nær til, til samanburðar við þá kafla þar sem lýsingu var breytt.
unnið af Bjarna Rúnari Ingvarssyni og Herði Bjarnasyni hjá Mannviti