PDF · desember 2018
Reglu­bund­ið mat á stöðu og þróun bílaum­ferðar og almenn­ings­samgangna – fram­halds­rann­sókn

Á höfuðborgarsvæðinu er safnað nokkuð umfangsmiklum samgöngutengdum gögnum af opinberum aðilum. Í fyrri hluta þessa verkefni sem kom út árið 2016, var sýnt fram á það hvernig hægt er að nýta þessi fyrirliggjandi gögn saman og fá þannig út víðtækari og heildstæðari mynd af umferðinni í Reykjavík. Í þessari framhaldsrannsókn er fókusinn víkkaður út, og ný snið mynduð svo hægt sé að greina betur stöðu og þróun vélknúinnar umferðar á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þau gögn sem opinberir aðilar safna með reglulegum hætti og eru nýtt hér eru:

• Reykjavíkurborg hefur um nokkurt skeið staðið fyrir umfangsmiklum umferðatalningum í sniðum í gegnum borgina.
• Umferðartalningar Vegagerðarinnar úr umferðarteljurum starfrækta víðsvegar um höfuðborgarsvæðið.
• Strætó bs. stóð fyrir árlegum farþegatalningum (inn- og útstig á hverri biðstöð) í október ár hvert til ársins 2015. Frá árinu 2017 hefur sjálfvirkur talningabúnaður tekið við sem telur allt árið.

Meginmarkið þessa verkefnis var að útvíkka skoðunarsvæðið frá fyrri rannsókninni og sýna stöðu og þróun á öllu höfuðborgarsvæðinu. Lögð voru drög að sex nýjum sniðum sem skipta svæðinu upp á skýran hátt. Framkvæma þurfti umferðartalningu á 40 umferðarstraumum á 14 stöðum til þess að ná yfir alla umferðina í sniðunum.

Heildarmyndin sem birtist þegar umferðartalningarnar og farþegatölur Strætó eru bornar saman í sniðum sýnir athyglisverða þróun. Almennt séð virðist hlutdeild almenningssamgangna aukast eftir því sem sniðin liggja nær eldir hverfum Reykjavíkur, einmitt þar sem umferðatafir verða hvað mestar á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að almenningssamgöngur hafa hlutfallslega meiri áhrif til minnkunar tafa í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu en birtist m.a. í ferðavenjukönnunum. Þar við bætist sú vísbending sem sjá má úr sniði 3 þar sem hlutdeild almenningssamgangna stóreykst á annatímum, nær 12,1% á morgnanna og 9% síðdegis.

Ný talningartækni Strætó bs. býður upp á þann möguleika að vinna sambærilega greiningu oftar, á öðrum árstíðum. Rétt er þó að hafa í huga að jafn umfangsmikil greining og hér birtist kallar á
umfangsmikla og mannaflafreka umferðartalningu. Það er skoðun skýrsluhöfundar að greining sem þessi sé nauðsynleg til hliðar við ferðavenjukannanir til þess að fá skýra mynd af stöðu og þróun í
umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Hana ætti að framkvæma að lágmarki annað hvert ár, helst á hverju ári.

Reglubundið mat á stöðu og þróun bílaumferðar og almenningssamgangna - framhaldsrannsókn
Höfundur

Mannvit

Skrá

reglubundid-mat-a-stodu-og-throun-bilaumferdar-og-almenningssamgangna-framhaldsrannsokn-lokautg.pdf

Sækja skrá