Í snjómoksturstæki á Reykjanesi, búið söltunar- og pækildreifara, fram- og undirtönn, var komið fyrir ferilvöktunarbúnaði, fjarskiptatæki (GSM) og skynjurum til að safna upplýsingum um staðsetningu, aðgerðir, hraða, vegalengd og tíma á sjálfvirkan hátt. Keyptur var stjórnbúnaður af framleiðendum tækjanna, þar sem hann var fyrir hendi (í þessu tilviki var framleiðandi söltunar og pækildreifarans - EPOKE). Áhersla var lögð á þróun móttöku gagna og gagnaúrvinnslu, og að reyna áreiðanleika búnaðarins. Við móttöku gagna frá tæki eru hnit heimfærð á vegakerfið þ.a. upplýsingar um aðgerðir safnast á ákveðna vegi og veghluta til frekari úrvinnslu. Á þann hátt er hægt að taka saman upplýsingar um aðgerðir, akstur, efnisnotkun, ruðningsvegalengdir o.fl. fyrir sérhvern veg, svæði o.þ.h. fyrir hvaða tímabil sem er.
Fyrstu niðurstöður benda til þess að þær upplýsingar sem fást með ofangreindum búnaði eftir úrvinnslu, gefi það gott og áreiðanlegt yfirlit um magntölur s.s. efni, akstur og tíma, fyrir sérhvern vegkafla, að vel megi nota niðurstöðurnar til uppgjörs í vetrarþjónustu og fyrir gæðaeftirlit. Rétt högun og staðsetning skynjara og gott eftirlit með virkni búnaðar eru forsendur fyrir áreiðanlegum og góðum niðurstöðum.
Gerð er grein fyrir nokkrum helstu lausnum á sviði ferilvöktunar og aðgerðaskráningar með gagnaflutning yfir GSM, TETRA eða gagnaskráning á minniskort.
Einar Pálsson