PDF · Útgáfa NR_1800_884 — maí 2021
Rafskútur og umferðarör­yggi

Ýmislegt þarf að hafa í huga þegar nýir ferðamátar eru kynntir til leiks því þeir geta á stuttum tíma orðið gífurlega vinsælir, eins og hefur sýnt sig með rafskútum. Tæplega tvö þúsund rafskútur eru til útleigu á höfuðborgarsvæðinu í dag og hafa rafskúturnar einnig dreift sér, í minna magni, til bæja á landsbyggðinni. Rafskútum í einkaeigu hefur sömuleiðis fjölgað mikið og er t.d. rafskútu að finna á 12% reykvískra heimila. Kannanir erlendis hafa sýnt að 93% notenda rafskúta leigja þær af þar til gerðum rafskútuleigum, og að rafskútur hafi áhrif á ferðamáta fólks. Rafskútunotendur kjósa að ferðast á hjólareinum og -stígum og orsök margra slysa á rafskútum má rekja til yfirborðs sem ýtir undir mikilvægi uppbyggingu innviða fyrir rafskútur í sveitarfélögum. Í íslenskum könnunum segjast 44% hafa prófað rafskútur og af þeim sem nota þær reglulega segjast 12% vilja nota þær á götum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst eða lægri, sem er þó ekki heimilt í dag.

Öllum ferðamátum fylgir ákveðin áhætta. Slysatíðni vegna rafskúta er mismunandi eftir aðstæðum í hverju landi en erlendis hafa verið gefnar út tölur allt frá 10 upp í 136 slys á milljón ekna km. Sumarið 2020 voru 149 sem leituðu sér aðhlynningar á bráðamóttöku Landsspítalans og mátti rekja stóran hluta slysa til ofsaaksturs, aksturs undir áhrifum áfengis og vímuefna, ökumanns sem missir jafnvægi eða vegna ójafns yfirborðs. 45% af þeim sem leituðu á bráðamóttöku voru undir 18 ára aldri.

Rafskútur og umferðaröryggi
Höfundur

VSÓ ráðgjöf

Skrá

nr_1800_884_rafskutur-og-umferdaroryggi.pdf

Sækja skrá