Í skýrslu um fyrra verkefnið sem kom út í júní 2013 er greint frá athugunum á öryggi standandi farþega í hópbifreiðum út frá tölfræði slysa hérlendis, en einnig voru skoðaðar skýrslur
og greinar erlendis frá þar sem umferðaröryggi er greint út frá tölfræði slysa eftir mismunandi ferðamátum. Í skýrslunni frá 2013 er út frá þessu ályktað að öruggara sé að sitja í hópbifreiðum
heldur en standa, en einnig var ályktað að öruggara væri að standa í hópbifreið en að sitja í fólksbifreið.
Sú rannsókn sem hér er greint frá byggir á grunni þeirrar frá 2013 og er tilgangurinn að nýta gögn sem hefur verið safnað til að rannsaka þetta nánar fyrir íslenskar aðstæður. Skoðuð voru
gögn frá Strætó bs. og slysagögn frá Samgöngustofu.
Út frá gögnum Strætó bs. (fyrir árið 2017) er hægt að sjá hversu margir farþegar eru í hverjum vagni hvert sinn og bera það saman við sætafjölda í viðkomandi vagni. Út frá því má meta hvort
einhverjir farþegar hafi þurft að standa. Fram kemur að það er mjög sjaldgæft að farþegar standi í vögnum utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur þó fyrir í viku hverri að farþegar standi milli
Mosfellsbæjar og Grundarhverfis, en það er vegur með hámarkshraða 90 km/klst.
Þegar slysagögn eru skoðuð, kemur í ljós að fjölgun hefur orðið á fjölda alvarlega slasaðra og látinna í hópbifreiðum hefur aukist úr tveimur árið 2013 í 15 árið 2017. Fjöldi lítið slasaðra hefur
einnig aukist á sama tíma úr 11 í 53. Hins vegar kemur einnig fram að ekkert alvarlegt slys varð á farþega í strætisvagni á landsbyggðinni á þessu tímabili. Aukningin í tölu alvarlegra slasaðra
og látinna (2 í 15) virðist því bundin við aðrar hópbifreiðar.
Til að bera saman öryggi í hópbifreiðum og fólksbifreiðum var gerð tilraun til að meta svokallað KSI gildi („killed or seriously injured rate“) út frá eknum farþegakílómetrum, þannig
að tekið sé tillit til að í hópbifreiðum eru yfirleitt fleiri farþegar en í fólksbílum. KSI gildið er lægra fyrir hópbifreiðar og því dregin sú ályktun að öruggara sé að ferðast í hópbifreiðum en
fólksbifreiðum, sem er samhljóma við fyrri athugun. Þó er hafður sá fyrirvari að úrtakið er lítið og gögn í vissum tilvikum af skornum skammti.
Verkefnið var unnið af Nils Ólafi Egilssyni, Kristjönu Ernu Pálsdóttur, Smára Ólafssyni og Svanhildi Jónsdóttur hjá VSÓ Ráðgjöf.