PDF · febrúar 2006
Nýtt umferðar­líkan Höfuð­borgar­svæð­isins, VSÓ-ráð­gjöf

Á miðju ári 1991 gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerð ríkisins með sér samning um endurskoðun og rekstur umferðarlíkans fyrir bifreiðaumferð á
höfuðborgarsvæðinu. Þessi samningur var endurnýjaður 1998 og síðla árs 2000 var ráðist í endurskoðun á líkaninu. Töldu ráðgjafar Svæðaskipulagsnefndar fyrir höfuðborgarsvæðið líkanið frá 1991 ekki lengur nægilega nákvæmt og var því nýtt spálíkan fullklárað árið 2001 sem byggði á gögnum frá árinu 1998 í stað 1991. Þetta
líkan er notað nú en fram hafa komið athugsemdir í þá veru að það sé ekki nægilega nákvæmt og gefi ekki raunsanna mynd af umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu.

Helstu niðurstöður
Við mat á niðurstöðum er umferðarflæði borið saman við þær talningar sem til eru og var markmiðið í nýja umferðarlíkaninu að ná matshluta niður fyrir 10% meðalfrávik frá talningum og spáhluta niður fyrir 20% meðalfrávik. Niðurstöður úr matshlutanum sýndu mjög góða nálgun eða einungis 8,4% meðalfrávik frá talningum. Þetta staðfestir gæði þeirra gagna sem unnið er með í þessum hluta, þ.e umferðartalningar og ferðavenjukönnun. Ennfremur staðfestir þetta gæði á þeim aðferðum sem notaðar eru í matshlutanum. Niðurstöður úr spáhlutanum sýndu hins vegar 44,9% meðalfrávik frá öllum talningum. Ef spáhlutinn var einungis skoðaður með tilliti til gatna með
umferð>5000 bílar/sólarhring (í hvora átt) voru frávikin hins vegar 24%.

Þó svo að spáhlutinn sé yfir settum markmiðum eru niðurstöður verkefnisins í heild betri en líkanið frá 2001, þar sem meðalfrávik matshlutans er 28% en spáhlutans 52%.

Ástæða þess að ekki náðist betri nálgun í spáhlutanum, þrátt fyrir mjög góða nálgun í matshlutanum, liggur í gögnum fyrir áætlun um landnotkun eða skipulagstölum sem eru notaðar í spáhlutanum. Þessi gögn sýna einfaldlega ekki nógu mikil tengsl við umferðarmyndun sem er nokkurt umhugsunarefni þar sem þetta form á skipulagstölum
hefur verið notað nær óbreytt síðustu áratugina.

Í þessu verkefni hefur aðferðafræði líkansins verið yfirfarin og bætt og á öllum sviðum hafa náðst betri niðurstöður en með þeim aðferðum sem notaðar hafa verið fram að
þessu. (Samanburð við núverandi líkan má sjá í kafla 8.6).

Ávinningurinn af þessu er nýtt, áreiðanlegt umferðarlíkan fyrir höfuðborgarsvæðið með greinagerð sem útskýrir líkanaferlið. Ennfremur heildarlíkan sem ræður t.d vel við
framtíðarumferðarspár, breytingar á skipulagstölum, háannatímalíkan, greiningu á fjölda ekinna km o.s.frv.

Nýtt umferðarlíkan Höfuðborgarsvæðisins - vsó
Höfundur

Lilja G. Karlsdóttir, Smári Ólafsson, VSÓ

Skrá

nytt-umferdarlikan-skyrsla.pdf

Sækja skrá