„Núllsýn“ er stefna í umferðaröryggi, sem hefur að markmiði að fækka fjölda dauðaslysa niður í núll, þ.e.a.s. að í náinni framtíð muni enginn deyja af slysförum í umferðinni. Þessi hugsýn var fyrst lögleidd í Svíþjóð árið 1997, en Svíar hafa lengi talist meðal fremstu þjóða heims í umferðaröryggi. Síðan hafa auk þess Noregur og Finnland tekið upp núllsýn.
Núllsýn hefur þann meginkost, að vera skýr og skilmerkileg hvað varðar þann árangur, sem ná á í umferðaröryggi. Sem slík, inniheldur núllsýn enga sérstaka aðferðafræði,
umfram það, sem unnið er að í umferðaröryggisáætlunum. Núllsýn hefur verið rædd mikið á s.l. áratug, og hefur sú umræða endurvakið áhuga margra á að takmarka enn
frekar fjölda alvarlega slasaðra og látinna í umferðinni. Ýmis önnur lönd hafa einnig tekið upp stefnu í umferðaröryggi, sem svipar um margt til núllsýnar. Þannig er t.d.
„nálgun að öruggu umferðarkerfi“ nátengd núllsýninni, en hún krefst þess eindregið, að tekið sé tillit til hennar í opinberri áætlanagerð og ákvörðunarferli.
Með upptöku þannig stefnu er einnig mælt hér. Þetta fæli þá í sér opinbera skuldbindingu um, að stefnt skuli að þannig hönnun vegakerfisins, að enginn slasist alvarlega eða látist af völdum umferðarslysa - auðvitað að því tilskyldu, að vegfarendur fari eftir settum reglum. Það er þá einnig mikilvægt, að bæta hraðastýringu á vegum,
með réttri hraðatakmörkun og öryggisgæslu. Upptöku öruggs umferðarkerfis fylgir óhjákvæmilega einhver stofnkostnaður, sér í lagi hér á landi, þar sem vegakerfið er
langt og ófullkomið. Verður það lagað í áföngum.
Núllsýn er ekki ný af nálinni, og segja má að hún sé nú þegar til staðar hér á landi innan annarra geira en umferðaröryggis. Þannig hefur mikil fækkun slysa náðst í flugi, á sjó og á vinnustöðum, með því að lögð hefur verið áhersla á sýn af þessu tæi. Þá geta stofnanir og sveitarfélög sjálf sett sér núllsýn.
Vinnuhópurinn leggur til að tekin verði upp núllsýn í umferðarmálum á Íslandi, og tímabundin markmið sett upp til að nálgast sýnina í áföngum á kerfisbundinn hátt:
(i) Núverandi starfi í umferðaröryggi verði haldið áfram, en vægi þess aukið svo að það verði meginviðmið í samgöngumálum. (ii) Stjórnkerfi umferðaröryggismála verði eflt og samhæfing og flæði upplýsinga aukið. (iii) Stofnuð verði nefnd á vegum stjórnvalda, sem fylgist með því að núllsýn sé framfylgt og stefnt sé að öruggu umferðarkerfi. Nefndin hafi auk þess eftirlit með framgangi sýnarinnar og eftirfylgni ákvarðana.
Haraldur Sigþórsson, Rögnvaldur Jónsson, Stefán Einarsson, Valdimar Briem