PDF · júní 2016
Nákvæm grein­ing hjól­reiða­slysa (slys sem urðu 2014)

Í september 2014 gaf umferðardeild Vegagerðarinnar út skýrslu sem byggir á upplýsingum um alvarlega slasaða hjólandi vegfarendur í umferðarslysum á Íslandi á tímabilinu 2011-2013. Á þessum þremur árum, sem voru skoðuð, varð töluverð breyting á tegund og fjölda slysanna á hjólandi vegfarendum. Árið 2013 urðu um tvöfalt fleiri slys en á árunum á undan. Mögulegar skýringar á þessari breytingu á fjölda slysa árið 2013 eru auknar hjólreiðar í samfélaginu og bætt skráning lögreglu á slysum sem urðu á hjólandi vegfarendum. Þegar slysategundirnar voru skoðaðar kom í ljós að mesta fjölgunin á milli ára var í slysategundinni „hjól eitt og sér“, þ.e.a.s. þegar engir aðrir vegfarendur en hjólandi vegfarandi komu við sögu í slysinu. Einnig bættist við slysategundin „árekstur á milli tveggja hjólandi vegfarenda“ árið 2013. Þessi breyting á þróun umferðaslysa sem urðu á hjólandi vegfarendum varð til þess að áhugi var fyrir hendi að fylgjast áfram með slysum af þessari gerð. Í febrúar 2015 sótti Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur á umferðardeild Vegagerðarinnar, um styrk til rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar til þess að vinna rannsóknarverkefnið „Nákvæm greining hjólreiðaslysa 2014“ sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu. Verkefnið felst í því að greina öll skráð umferðarslys þar sem að hjólandi vegfarandi kom við sögu í slysinu fyrir árið 2014.

Í greiningunni er skipting slysa eftir tegund og afleiðingum, þ.e. hvort um meiðsli á fólki var að ræða í slysinu og alvarleika meiðslanna, ásamt fleiri þáttum, skoðuð fyrir árið 2014. Nákvæm greining á slysunum felst í því að atburðarás og orsök slysanna er skoðuð, í þeim tilgangi að greina helstu hættur sem liggja fyrir þessum vegfarandahópi.

Markmið verkefnisins er að niðurstöðurnar nýtist í að auka umferðaröryggi hjólandi vegfaranda. Slysagögn sem eru notuð í verkefninu eru byggð á grunngögnum sem Vegagerðin hefur fengið frá Samgöngustofu en Samgöngustofa byggir sína slysaskráningu á lögregluskýrslum og gögnum frá fyrirtækinu Aðstoð og öryggi. Vitað er að um verulega vanskráningu á hjólreiðaslysum er að ræða. Í því sambandi má nefna að Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur unnið að rannsóknarverkefnum á þessu sviði með styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Í þeim verkefnum hefur verið unnið úr gögnum Landspítala Háskólasjúkrahúss um slasaða hjólreiðamenn sem leituðu til bráðamóttöku. Þegar hafa verið gefnar út skýrslur hvað þetta varðar.

Hér á eftir eru, eins og áður segir, eingöngu til skoðunar slys sem eru í gagnagrunni Samgöngustofu. Í greiningunni voru öll skráð slys skoðuð þar sem reiðhjól koma við sögu. Umferðarlög skilgreina reiðhjól með eftirfarandi hætti í 2. gr. laganna:

Reiðhjól:
[a. Ökutæki sem er knúið áfram með stig- eða sveifarbúnaði.
b. Hjól með stig- eða sveifarbúnaði, búið rafknúinni hjálparvél þar sem samfellt hámarksafl er 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km á klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.
c. Annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól, tvíhjóla ökutæki á einum öxli og hjólastóll sem er ekki hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.

Í greiningunni eru gögn um öll slys sem urðu 2014 þar sem reiðhjól kom við sögu skoðuð. Notast er við ofangreinda skilgreiningu á reiðhjóli við greiningu slysagagnanna.

Nákvæm greining hjólreiðaslysa
Höfundur

Umferðardeild

Skrá

nakvaem_greining_hjolreidaslysa_2014.pdf

Sækja skrá