PDF · apríl 2018
Nákvæm grein­ing árekstra á milli reið­hjóls og bifreiðar við gatna­mót

Árið 2015 styrkti rannsóknasjóður Vegagerðarinnar verkefni þar sem gerð var nákvæm greining á hjólreiðaslysum (skýrsla kom út í júní 2016). Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að
algengasta slysategund á hjólandi vegfarendum var árekstur milli bifreiðar og reiðhjóls og 75% þeirra varð við tengingu eða gatnamót. Í þessu verkefni voru slík slys greind nánar. Skoðuð voru
öll skráð tilvik á árunum 2015 og 2016.

Greiningin fólst í að skoða atburðarás slysa nánar, við hvaða aðstæður þau urðu og reynt var að skrá hugsanlega orsök. Gögnin eru byggð á grunngögnum sem Vegagerðin hefur fengið hjá
Samgöngustofu, sem byggir sína slysaskráningu á lögregluskýrslum og gögnum frá Aðstoð og öryggi. Teknar eru saman ýmsar tölulegar upplýsingar um slysin, sem voru samtals 46 árið 2015
og 59 árið 2016. Í viðauka er svo gerð stutt grein fyrir hverju slysi og sýnd afstöðumynd þar sem hún var teiknuð í skýrslum.

Greining leiddi í ljós að algengustu útskýringar á tildrögum slyss eru eftirfarandi:
 Slæmt skyggni eða að sól blindaði sýn ökumanns bifreiðarinnar.
 Ökumaður bifreiðar var með augun á umferð sem ók eftir götunni, fylgdist ekki með stígum og gangstéttum.
 Sýn ökumanns bifreiðar skert vegna húss, hljóðmanar, bifreiðar, gróðurs og fl.
 Misskilningur: Hjólandi vegfarandi taldi að ökumaður bifreiðar hefði séð til sín þegar svo var ekki.
 Misskilningur: Vegfarendur sáu hvor annan og töldu báðir að hinn aðilinn myndi víkja.
 Hraði: Hvorki hjólandi vegfarandi né ökumaður bifreiðar náði að bregðast við í tæka tíð til að forða slysi

Fram kemur að niðurstöður verkefnis bendi til að aðal vandamálið sé vegsýn við gatnamót og inn- og útkeyrslur og skortur á meðvitund ökumanna bifreiða um umferð reiðhjóla. Niðurstöður
undirstrika mikilvægi góðrar hönnunar á innviðum ætluðum hjólreiðum við gatnamót. Þá kemur fram að færri slys verða við gatnamót og inn- eða útkeyrslur þegar hjólað er í sömu átt og
akstursstefna götunnar og taka ætti tillit til þess við innviðauppbyggingu.

Nákvæm greining árekstra á milli reiðhjóls og bifreiðar við gatnamót
Höfundur

Katrín Halldórsdóttir

Skrá

nakvaem-greining-arekstra-bifreida-og-reidhjola-vid-gatnamot.pdf

Sækja skrá