Markmið verkefnisins er að hefja vinnu við að meta hina íslensku reglu um útakstur úr tvöföldum hringtorgum, þar sem vinstri akrein á rétt umfram þá hægri, m.t.t. kosta og galla. Hugmyndin með þessu verki er að hefja undirbúningsvinnu þannig að síðar meir verði hægt að búa til aðferðir við útreikninga á rýmd útkeyrslna, tafatímum og þjónustustigi þeirra. Grundvöllur þess er að búa til öflugan gagnagrunn með umferðartölum fyrir íslensk tveggja akreina hringtorg og skoða skiptingu umferðar milli akreina sérstaklega. Til þess var safnað gögnum um nokkur íslensk torg: Melatorg; hringtorg á mótum Fjarðarhrauns, Flatahrauns og Bæjarhrauns í Hafnarfirði og hringtorg á mótum Breiðholtsbrautar og Suðurlandsvegar. Gögnin verða í framtíðinni borin saman við þýskan gagnagrunn fyrir samsvarandi hringtorg.
Ekki er til íslensk reikniaðferð til að reikna umferðarrýmd, tafatíma og þjónustustig íslenskra hringtorga. Umferðarregla um útakstur úr íslenskum tveggja akreina hringtorgum er frábrugðin því sem þekkist erlendis frá. Það er trú manna að þessi sérstaða skapi aukna umferðarrýmd.
Rétt er að geta þess að verkefnið tekur ekki á innkeyrslum, sem vanalega er mælikvarði á umferðarrýmd torga í heild. Þessi þáttur hefur að hluta til þegar verið skoðaður í eldri íslenskum heimildum og hann gæti orðið efniviður í annað verkefni þegar fram líða stundir. Þó að innkeyrslur séu hinn hefðbundni mælikvarði á rýmd torga þá skipta útkeyrslur einnig verulegu máli, sérstaklega ef umferðarmagn verður mikið. Enn fremur eru áhrifin óbein því að sú algenga erlenda regla að hægri akreinin hafi réttinn fram yfir þá vinstri hefur óumdeilanlega áhrif á akreinaval ökumanna. Sem dæmi eru umferðarþung tveggja akreina hringtorg í Þýskalandi oft með fulla hægri akrein en tóma vinstri og það eru mjög vannýtt torg. Gagnaöflun um útkeyrslur, sem fer fram nú í þessari skýrslu, getur nýst í áframhaldandi vinnu.
Markmið verkefnisins faglega er því að benda á leiðir til að meta útkeyrslur tveggja akreina torga, en geta jafnframt leitt til hönnunarlegs ávinnings og aukinnar hagkvæmni.
Katrín Halldósdóttir, Haraldur Sigþórsson, Línuhönnun