PDF · Útgáfa 06154 — október 2007
Ljós­astýr­ingar­tölva – Stýri­aðferð­ir og rekstur – Rann­sóknar­verk­efni

Samstarfsnefnd Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar var skipuð á vormánuðum 2003 til að vinna að kaupum á ljósastýringartölvu eða kerfi fyrir Höfuðborgarsvæðið. Nefndina skipa Baldvin E. Baldvinsson, Höskuldur Tryggvason og Stefán Finnsson frá Reykjavíkurborg og Jónas Snæbjörnsson, Bjarni Stefánsson og Baldur Grétarsson frá Vegagerðinni. Kerfið var síðan keypt árið 2006 af Siemens og miðaðist samningurinn við innleiðslu á búnaðinum á 36 gatnamótum í Reykjavík auk þriggja gatnamóta utan Reykjavíkur. Uppsetningu lauk á vormánuðum 2007 og að loknu þriggja mánaða prufukeyrslutímabili er gert ráð fyrir að kerfið verði formlega tekið í notkun
haustið 2007. Vonir standa til að kerfið nái til stýringar allra umferðarljósa í Reykjavík árið 2010.

Umferðarljósum getur verið stýrt á ýmsa vegu, sú stýritækni sem fylgdi með kaupunum á ljósastýringatölvunni heitir TASS sem stendur fyrir Traffic-Actuated Selection of Signal programs. TASS aðlagar sig að vissu marki að umferðinni hverju sinni en takmarkanir TASS eru þó bundnar við að hanna þarf ljósastillingar fyrirfram til að forritið geti valið úr þeim. Önnur stýring sem hægt er að bæta við ljósastýringartölvuna kallast MOTION sem stendur fyrir Method for the Optimization of Traffic signals In Online controlled Networks. Með MOTION hefur umferðin bein áhrif á lotutímann á ákveðnum stað, einum gatnamótum eða einni grænni bylgju og ekki er þörf á að hafa fyrirfram hannaðar ljósastillingar til taks. TASS er almennt talið henta þar sem umferðarmagn er nokkuð fyrirsjáanlegt en MOTION er talið eiga betur við á stöðum þar sem umferðarmagn er óreglulegra.

Auk þess að leggja mat á hvaða stýriaðferð er talin henta höfuðborgarsvæðinu í dag var, í þessu verkefni, lögð áhersla á mat á rekstrarhluta ljósastýringarkerfisins með áherslu á umferðartæknilegan rekstur. Uppfærsla á ljósastillingum er nefnilega algjört lykilatriði í að ná sem mestu út úr fjárfestingunni því innleiðsla ljósastýringarkerfa skilar litlu sem engu ef gamlar og úreltar ljósastillingar eru áfram notaðar.

Samkvæmt erlendum viðmiðunarrannsóknum ætti árlegur rekstrarkostnaður, fyrir það ljósastýringarkerfi sem búið er að fjárfesta í, að vera um 13,7 milljónir kr. Sú upphæð skiptist í 11,4 milljónir vegna kostnaðar við almennt viðhald og vélbúnað og 2,3 milljónir í umferðartæknilegt viðhald.

Ef áætlun um að ljósastýringarkerfið nái til allra ljósa á höfuðborgarsvæðinu árið 2010 gengur eftir myndi rekstrarkostnaðurinn hækka upp í tæpar 40 milljónir króna á ári (m.v. 140 ljós) og skiptast í um 32 milljónir fyrir viðhald og vélbúnað en 8 milljónir fyrir uppfærslu á ljósastillingum.

Nauðsynlegt er fyrir forráðamenn ljósastýringarkerfisins að framkvæma greiningu á núverandi ástandi til þess að hafa einhver viðmið fyrir mögulegan ávinning. Slík greining myndi líka gefa vitneskju um ástand og virkni gatnakerfisins, hvort kerfið sé virkilega mettað eða hvort við Íslendingar erum bara vön of góðu. Ennfremur er talið nauðsynlegt að fyrir liggi aðgerðaráætlun um það hvernig haga á umferðartæknilegu viðhaldi, t.d. hvaða breytur ætti að skoða á gatnamótum, ferðahraða, raðalengdir, fjöldi stoppa o.s.frv., til að fá sambærileg gögn sem hægt er að bera saman þrátt fyrir að mismunandi aðilar vinni verkið. Síðan er mikilvægt að vera með einhver
markmið um það hversu oft sé æskilegt að uppfæra ljósastillingar eða í það minnsta að gera úttekt á þeim.

Ljósastýringartölva
Höfundur

LGK, VSÓ

Skrá

ljosastyringatolva-styriadferdir_skyrsla.pdf

Sækja skrá