PDF · apríl 2009
Kort­lagn­ing svart­bletta með ArcG­IS landupp­lýsinga­kerfi

Svartblettir eru stuttir kaflar eða ákveðnir staðir á vegakerfinu, þar sem uppsöfnun slysa er meiri en er að jafnaði á vegakerfinu. Þetta geta verið t.d. vegamót, krappar beygjur eða aðrir þeir staðir þar sem aðstæður eru þess valdandi að slys verða algengari en ella. Oft á tíðum má lagfæra þessa staði með litlum tilkostnaði. Vandamálið er hins vegar að greina hvar svartblettir eru.

Hingað til hjá Vegagerðinni hafa svartblettir verið fundnir m.a. með því að skoða slysakort sjónrænt og velja út handvirkt þá staði þar sem fjöldi slysa er grunsamlega hár. Þá hafa einnig verið skoðaðir staðir þar sem komið hafa fram ábendingar um að fjöldi slysa sé óeðlilegur. Þar sem það er tímafrekt að fara yfir kort sjónrænt og það reynir á athugandann þótti spennandi að kanna hvort greining svartbletta með landupplýsingakerfi myndi reynast nothæf. Nýlega hefur verið tekið í notkun ArcGIS landupplýsingakerfi hjá Vegagerðinni og þótti áhugavert að nota það í þessu verkefni.

Ákveðið var að kortleggja svartbletti með tvennskonar aðferðum. Þetta eru aðferðir sem hafa verið notaðar í Danmörku með ágætis árangri. Annars vegar með því að nota ferningsnet en þá er landinu skipt upp í jafnstóra reiti og slys innan hvers reits eru talin. Hins vegar með því að nota jafnlanga stiku sem er lögð eftir vegakerfinu og slys talin innan stikunnar.

Í þessu verkefni var einnig ákveðið að skoða eingöngu slys utan þéttbýlis. Slys innan þéttbýlis eru yfirleitt annars eðlis en á vegum í dreifbýli. Þar sem ársdagsumferð er meiri en 1.000 bílar á sólarhring og vegir eru stuttir, eins og víða á við í þéttbýli, má nær undantekningarlaust gera ráð fyrir að svartblettir finnist.

Ekki var farið í að reikna út slysatíðni, þ.e. fjölda slysa á ekna kílametra. Eingöngu var leitast við að finna hvar slys þyrpast saman. Þegar þeir staðir eru fundnir má halda áfram greiningarvinnu og reyna að finna hvaða ástæður liggja að baki miklum fjölda slysa.

Í þessu verkefni var gengið út frá því að svartblettur væri sá staður þar sem slys væru fleiri en fjögur á tímabilinu 2004-2007.

Kortlagning svartbletta með ArcGIS landupplýsingakerfi
Höfundur

Hersir Gíslason, Auður Þóra Árnadóttir

Skrá

kortlagn_svartbletta_med_arcgis.pdf

Sækja skrá