PDF · janúar 2003
Inntaks­gildi í hermunar­forrit – Áfanga­skýrsla

Á síðustu árum hefur notkun hermunarforrita aukist við hönnun stærri umferðarmannvirkja á Íslandi, en einnig við umferðarskipulag og minni framkvæmdir. Dæmi um verkefni þar sem hermun hefur verið notuð eru forhönnun mislægra gatnamóta við Skeiðarvog, forhönnun Sundabrautar, forhönnun mislægra gatnamót á Reykjanesbraut og umferðarskipulag fyrir Kristnitökuhátíð 2000.

Forritið sem notað hefur verið við þessar hermanir heitir CORSIM og er bandarískt. Allt frá því að byrjað var að nota forritið hafa menn velt því fyrir sér hversu vel forritið nær að líkja eftir íslenskum aðstæðum en eins og menn vita er umferðarmenning mismunandi milli landa.

Vorið 2000 vann Samúel Torfi Pétursson lokaverkefni við Háskóla Íslands sem fjallaði um inntaksgildi forritsins. Í verkefninu var gerð frumrannsókn á íslenskum gildum fyrir mettað forskot (e. saturation headway) og tapaðan tíma (e. start-up lost time) á umferðarljósum og tvísýnt ökubil (e. critical gap) á gatnamótum án ljósastýringar, auk athugunar á akreina vali og lágmarksbili milli ökutækja við samruna (e. merging).

Í kjölfarið var sótt um styrk til Rannsóknarráðs Vegagerðarinnar til að vinna verkefnið frekar. Í þessum hluta þess verks er ætlunin að beina athyglinni að mettuðu forskoti og töpuðum tíma á umferðarljósum auk þess að meta næmni forritsins fyrir breytingum á þessum stærðum.

Í seinni hluta verkefnisins, sem gert ráð fyrir að vinna 2003 ef áframhaldandi styrkveiting fæst, verður sjónum beint að tvísýnu ökubili og billengd við fléttun umferðarstrauma á stofnbrautum.

Inntaksgildi í hermunarforrit - Áfangaskýrsla
Höfundur

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Haraldur Sigþórsson, Þorsteinn Þorsteinsson - Línuhönnun, Verkfræðistofnun HÍ

Skrá

inntaksgildi_i_hermunarforrit.pdf

Sækja skrá