PDF · 31. ágúst 2013
Innlendur salt­pækill til hálku­varna 2013

Vegagerðin kaupir árlega innflutt salt til hálkuvarna á SV-svæði fyrir allt að 300 milljónir króna. Skýrslan lýsir frumkönnun á hagkvæmni þess að framleiða innanlands saltpækil til vegagerðarnota (hálkuvarnir og rykbinding). Rannsóknin beinist að eimingu sjávar til þess að framleiða saltpækil með notkun ódýrrar orku frá orkuveri á Reykjanesi.

Niðurstöðurnar sýna að pækilframleiðsla á Reykjanesi yrði hagkvæmari því meiri pækill sem er framleiddur. Eins og verklag er núna þá myndi ekki
borga sig að framleiða innlendan pækil, en aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á kosti þess að auka pækilnotkun við hálkuvarnir. Ef gert er ráð fyrir að pækilnotkun sé aukin á kostnað þurrsalts þá fer framleiðslan að borga sig. Ef tekin er saman lækkun kostnaðar vegna aukinnar pækilnotkunar og innlendrar framleiðslu á pækli þá gæti árlegur sparnaður Vegagerðarinnar vegna saltinnkaupa numið tugum milljóna króna. Forsenda arðbærrar pækilframleiðslu er breytt verklag við hálkuvarnir, þar sem hlutfall pækils er aukið, en við það eitt sparast miklar fjárhæðir. Ásamt fjárhagslegum ágóða þá myndi framleiðslan einnig minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið sem samsvarar allt að 1000 tonnum af koltvísýringi árlega, vegna minni sjóflutninga á salti frá Miðjarðarhafinu. Forsendur um um stofn- og rekstrarkostnað pækilverksmiðju eru hér lauslega áætlaðar, en ætla má að þessi kostnaður þurfi ekki að vera mjög mikill þar sem framleiðsluferlið er tiltölulega einfalt og hráefnis- og orkukostnaður lágur.

Hugsanleg næstu skref í þessu verkefni eru að kanna nánar tæknalegar forsendur framleiðslunnar með því að setja upp tilraunaframleiðslu í smáum skala, og í framhaldinu að meta fjármagns- og rekstrarkostnað pækilverksmiðju. Jafnframt þarf að meta kosti þess að auka framleiðsluna umfram það sem gengið er út frá í þessari skýrslu, t.d. með því að taka mið af hálkuvörnum á höfuðborgarsvæðinu öllu, ásamt því að huga að saltþörf til rykbindingar malarvega að sumri til.

Innlendur saltpækill til hálkuvarna 2013
Höfundur

Skúli Þórðarson, Vegsýn ehf, Anton Þórólfsson, University of Camebridge

Verkefnastjóri

Skúli Þórðarson

Skrá

innlendur-saltpaelkill-til-halkuvarna-2013.pdf

Sækja skrá