Margar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif hraðatakmarkandi aðgerða á umferðaröryggi. Góður árangur næst af hraðatakmarkandi aðgerðum ef þær eru skipulagðar yfir stærri svæði og fjölbreyttum aðgerðum beitt með skipulögðum hætti. Því er oft mælt með að slíkar aðgerðir séu ákveðnar á skipulagsstigi. Hraðahindranir eru þær aðgerðir sem hafa hvað mest áhrif til hraðalækkunar. Varast ber þó að nota hraðahindranir á leiðum þar sem eru áætlunarferðir strætó eða neyðarakstur algengur. Í þeim tilfellum sem nauðsynlegt er að notast við hraðahindranir er æskilegt að þær taki mið af stærri farartækjum. Aðrar aðgerðir virka vel til hraðalækkunar en þær virka þó yfirleitt betur í samþættingu með hraðahindrunum. Hraðavaraskilti við skóla virðast vera vænlegar til árangurs, en þó yfir stuttan kafla.
Berglind Hallgrímsdóttir