PDF · júní 2016
Hlutur erlendra ferða­manna í slys­um á hring­torg­um

Rannsóknarverkefnið Hlutur erlendra ökumanna í slysum hringtorga fólst í greiningu á slysum sem urðu á 17 hringtorgum og eru öll staðsett á þjóðvegum á stór höfuðborgarsvæðinu. Í febrúar 2015 sótti Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur á umferðardeild Vegagerðarinnar, um styrk til rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar til að vinna verkefnið.

Í verkefninu var farið yfir slysagögn á tímabilinu 2011-2015 fyrir 17 tveggja akreina hringtorg sem eru öll á þjóðvegum í grennd við og innan höfuðborgarsvæðisins. Fyrir hvert hringtorg var fjöldi slysa athugaður og í hversu mörgum tilvikum erlendur ökumaður átti hlut að máli. Þau slys, þegar erlendur ökumaður kom við sögu, voru svo greind nánar. Mismunandi er eftir löndum hvaða reglur gilda um akstur í hringtorgum með fleiri en einni akrein. Tilgangur verkefnisins er að athuga hvort erlendir ökumenn séu líklegri til að lenda í slysi í hringtorgum vegna þessa.

Verkefnið byggir á grunngögnum sem Vegagerðin hefur fengið frá Samgöngustofu en Samgöngustofa byggir sína slysaskráningu aðallega á lögregluskýrslum og gögnum frá fyrirtækinu Aðstoð og öryggi. Hægt er að lesa út úr gögnum Samgöngustofu hvort erlendir ökumenn koma við sögu í tilteknu slysi eða ekki. Hins vegar er ekki hægt að sjá hvort viðkomandi erlendi ökumaður er ferðamaður eða ekki. Einnig var leitað til tryggingafyrirtækja og bílaleiga til að fá upplýsingar um slys og upplifun erlendra ferðamanna á hringtorgum hér á landi.

Markmið rannsóknarinnar er að auka umferðaröryggi erlendra ferðamanna. Erlendir ferðamenn
eru orðnir stór hluti af daglegri umferð á Íslandi og þeim fer fjölgandi með hverju árinu sem líður.

Hlutur erlendra ökumanna í slysum hringtorga
Höfundur

Katrín Halldórsdóttir

Skrá

hlutur_erlendra_ferdamanna_i_slysum_hringtorga.pdf

Sækja skrá