Í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 er í 5 ára aðgerðaáætlun sett fram verkefnið „Lokið verði við skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga innan helstu þéttbýliskjarna og á vinsælustu ferðamannaleiðum”. Við gerð samgönguáætlunar er unnið í takt við fimm meginmarkmið um að samgöngur séu öruggar, greiðar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Verkefnið um skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga er sett fram undir markmiði um greiðar samgöngur. Í samgönguáætlun er stefnt að því að byggja upp og styrkja grunnnet allra samgangna. Í skilgreindu grunnneti er um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir. Sérstök aukin áhersla er í áætluninni lögð á almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá verður unnið að því að auka möguleika hjólandi í umferðinni í samræmi við stefnu stjórnvalda. Uppbygging grunnnetsins, viðhald þess og rekstur er forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun.
Tilgangur þessa verkefnis er að skoða hvernig að skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga verði best staðið og hvaða hjólaleiðir ættu að verða hluti af grunnnetinu. Skoðuð eru erlend dæmi um hvernig grunnnet samgangna er skilgreint og á hvaða hátt tenging hjólreiðastíga er þar sett fram (kafli 3) og farið er yfir hvernig Vegagerðin kemur að hjólreiðum í dag, þ.e. utanumhaldi, hönnun og fjárveitingum (kafli 4). Einnig eru settar fram tillögur að leiðum í netið (kafli 5). Skoðaðar eru bæði núverandi leiðir og mögulegar nýjar leiðir, og einnig leiðir bæði innan og utan þéttbýlis.
Áhersla á hjólreiðar styður við öll fimm meginmarkmiðin samgönguáætlunar og er mikilvægur liður í að bæta öryggi, greiðleika, hagkvæmni og umhverfislega sjálfbærni samgangna og getur haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun. Með hjólreiðum má gera samgöngur umhverfisvænni, ódýrari og aðgengilegri auk þess sem hjólreiðar hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu.
Veturinn 2019-2020 kom fram fyrirspurn á Alþingi varðandi gerð hjólreiðastíga (sjá viðauka A) og í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við henni kom fram að sérfræðinganefnd á vegum
umhverfisráðuneytisins benti árið 2009 á lagningu stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem aðgerð til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Samhliða þessu verkefni er unnið annað verkefni sem fjallar um að greina kosti þess að lykilleiðir almenningssamgöngukerfisins verði hluti af grunnneti samgangna.
Ólöf Kristjánsdóttir, Mannvit