PDF · júní 2018
Erlend­ir vetrar­ferða­menn – vegir og þjón­usta 2017-2018

Í skýrslunni eru teknar saman niðurstöður tveggja kannana meðal erlendra ferðamanna. Annars vegar Dear Visitors könnun sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) hefur
gert meðal erlendra brottfarargest í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hins vegar viðtalskönnun meðal erlendra bílstjóra á bílaleigubílum í Reynisfjöru og Skaftafelli mánuðina apríl, september,
október og nóvember 2017 og febrúar og mars 2018.

Mikið af niðurstöðum eru settar fram í skýrslunni. Meðal annars má nefna að ferðamönnum utan sumartíma hefur fjölgað mun meira en sumargestum frá árinu 2011, sem leggur grunn að
betri nýtingu fjárfestinga í greininni. Notkun bílaleigubíla hefur aukist undanfarin ár og allt árið 2017 voru það um 61% gesta sem nýttu sér þann möguleika. Fram kemur að 44% nýttu sér
bílaleigubíla yfir dimmustu vetrarmánuðina (janúar, febrúar, nóvember og desember) 2017, þó heildarvegalengd sem ekin er á þeim mánuðum sé minni en yfir sumarmánuðina. Áætlað er að
erlendir ferðamenn hafi ekið bílaleigubílum alls um 635 milljón km á Íslandi árið 2017 og út frá því er áætlað að eldsneytisútgjöld þeirra hafi verið yfir 10 milljarðar króna.

Í könnununum var m.a. spurt um ástæður skyndistopps í vegkanti og sögðust flestir stoppa til að skoða landslag og útsýni (um 71-87%), þar á eftir voru norðurljós og hestar nefndir til
sögunnar. Bílbeltanotkun í framsætum er nánast undantekningalaus (99%), en hins vegar minni í aftursætum (82%) og þar stóðu farþegar frá Asíu sig verst (63%) en Bretar (93%),
Norðurlandabúar (96%) og fólk frá Benelux löndunum (100%) stóðu sig betur.

Fram kemur meðal brottfarargesta í Leifsstöð að vitneskja um tilvist heimasíðu Vegagerðarinnar (www.road.is) er ekki mikil, en hefur þó aukist milli áranna 2016 (14%) og
2017 (18%). Færri (9%) vissu um upplýsingasímann (1777) og sára fáir (1%) nýttu sér hann. Flestir vetrargestir (87%) fylgjast með veðurspám og ná í hana á vefnum.
Erlendir gestir telja það brýnast að fækka mjóum vegöxlum og vegum sem og einbreiðum brúm. Margir telja þó vegakerfið betra en þeir höfðu búist við, þó stærsti hlutinn telji ástand svipað og
þeir höfðu vænt. Í flestum tilvikum eru ábendingar erlendu ferðamannanna um vandamál þó þannig að við vitum um þau og hversu brýnt það er að laga þau.

Erlendir vetrarferðamenn vegir og þjónusta 2017-2018
Höfundur

Rögnvaldur Guðmundsson, Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf.

Skrá

erlendir_vetrarferdamenn_vegir_og_thjonusta_2017_2018-002.pdf

Sækja skrá