Þessi skýrsla er afrakstur verkefnis sem nefnist „Dreifilíkan hjólandi umferðar“ og er framhald samnefnds verkefnis frá árinu 2014. Fyrra verkefnið fólst í að leggja grunn að líkani sem gæti metið magn hjólaumferðar á höfuðborgarsvæðinu, og í þessum áfanga var líkanið svo þróað enn frekar.
Líkan sem þetta getur nýst til leggja mat á hvar meginþungi hjólandi umferðar liggur, hvar mesta þörfin er fyrir úrbætur og getur gefið gott innlegg í umræður um forgangsröðun framkvæmda og samgöngubóta fyrir hjólandi umferð. Einnig opnast sá möguleiki að meta aukið álag á hjólaleiðum m.v. tiltekna aukningu hjólreiða, t.d. með tilliti til markmiða um breyttar og vistvænni ferðavenjur.
Hjólreiðar eru vistvænn, mengunarlaus, hljóðlátur og ódýr ferðamáti. Auk þess eru hjólreiðar heilsusamlegar. Af þessum sökum hafa stjórnvöld víða um heim í æ ríkari mæli reynt að auka hlutdeild hjólreiða sem ferðamáta og gera hjólreiðar að raunverulegum valkosti fyrir sem flesta.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin hafa það markmið að styrkja hjólreiðar sem samgöngumáta. Í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 og í gildandi Samgönguáætlun 2011-2022 eru sett fram markmið um aukna hlutdeild hjólreiða og að hjólreiðar verði styrktar sem samgöngumáti.
Í fyrra verkefninu var lagt til að líkanið yrði þróað í þá átt að geta tekið tillit til langhalla á stígum. Langhalli stíga og gatna er einn af mest ráðandi þáttum í leiðavali hjólreiðafólks, þar sem leiðavalið ræðst að verulegu leyti af því hvort brattar brekkur eru á leiðinni. Þó keppnishjólreiðafólki þyki brekkur eftirsóknarverðar er yfirleitt ekki svo með hinn venjulega hjólreiðamann sem gjarnan velur aðeins lengri leiðir með meira aflíðandi brekkum.
Eitt megin markmið þessa verkefnis var því að ákvarða langhalla á stígum í stígakerfi höfuðborgarsvæðisins og uppfæra stíganet líkansins með þeim upplýsingum. Niðurstöður sýna að samræmi líkans við talningar er mjög gott, meðalfrávik fyrir alla talningarstaði er sem nemur 8 hjólum og meðalprósentufrávikið 2,6%, þar sem hæsta frávik frá talningum er 38 hjól eða 9,9%.
Jafnframt var rýnt í talningargögnin en talningarnar eru talsvert breytilegar milli ára. Dægursveiflan í fjölda hjólreiðafólks er auk þess mjög mikil. Á hjólastígnum við Suðurlandsbraut er staðsettur sjálfvirkur hjólateljari sem telur allan sólarhringinn allt árið. Tölur frá honum sýna að fjöldinn er mjög sveiflukenndur milli daga, en meðalfjöldinn pr. dag er um 280 hjól með staðalfrávik uppá 210.
Ef niðurstöður þessa líkans eru bornar við fyrri útgáfu líkansins sést að heildarvegalengd hjólaferða eykst um 464 km (1,4%) og meðalvegalengd ferða eykst um 0,4 km (9,4%). Þetta er í samræmi við breytt leiðaval þar sem líkanið velur frekar lengri leiðir til að takmarka klifur (langhalla). Meðalferðatími eykst af þessum sökum um 0,4 mín. (3,0%).
Annað mikilvægt atriði er að meðalhraði hækkar úr 17,7 km/klst (sbr. fyrra líkan) í 18,6 km/klst sem er aukning uppá 5,1%. Meginástæða þessarar aukningar er sú að þegar langhallinn er tekin með í reikninginn verður hraðaaukningin niður brekku hlutfallslega meiri en hraðalækkunin upp sömu brekku, sem leiðir til þess að meðalhraðinn eykst lítillega.
Þegar líkanið tekur tillit til langhalla á stígum fjölgar styttri ferðum og lengri ferðum fækkar. Ferðum sem er 10 mínútur eða styttri fjölgar um 27%, en ferðum sem taka 10-30 mínútur fækkar um 13%. Þannig eru 57% ferða 10-30 mínútna langar þegar ekki er tekið tillit til langhalla en 49% þegar langhallinn er tekið með í reikninginn. Þannig breytist ferðamynstrið nokkuð þegar tekið er tillit til langhalla, sem er vel í takti við það sem búist var við.
VSÓ ráðgjöf