PDF · október 2019
Borgar­lína og umferðarör­yggi

Hryggjarstykkið í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 sem samþykkt var árið 2015 er þróunar- og samgönguás. Áætlað er að hágæða almenningssamgöngur, eða svokölluð Borgarlína, verði meðfram ásnum og er stefnt að því að hún verði Bus Rapit Transit kerfi (BRT). Mikil umræða hefur skapast um þessar hágæða almenningssamgöngur og er nú gert ráð fyrir umfangsmiklu Borgarlínu kerfi sem mun fara víða um höfuðborgarsvæðið. Tilgangur þessa verkefnisins er að varpa ljósi á helstu þætti sem þarf að huga að við skipulagningu og hönnun Borgarlínu m.t.t umferðaröryggis og vera þannig innlegg í upplýsta umræðu um Borgarlínu. Í verkefninu er litið til erlendra rannsókna um umferðaröryggi BRT.

Breyting á umferðaröryggi tengist því ekki beint hvaða tæknilausn verður notuð, t.d. BRT eða léttlest, heldur er það frekar innviðauppbyggingin sem fylgir innleiðingu samgöngukerfisins. Reynslan sýnir að með tilkomu BRT sem er vel útfært eykst öryggi. Því meiri forgang sem kerfunum er veittur, óháð tækninni sem notuð er, því meira eykst umferðaröryggi. Áætlanir gera ráð fyrir að Borgarlína muni nýta sérreinar og af því leiðir að öryggi í samgöngum eykst, sem mun hafa jákvæð áhrif á umferðaröryggi á höfuðborgarsvæðinu.

Miðlæg BRT, bann á vinstri beygjum og ljósastýrðar gönguþveranir með miðeyju hafa marktæk jákvæð áhrif á umferðaröryggi BRT.

Styttri ferðatími og aukinn meðalhraði BRT, miðað við hefðbundið strætókerfi, stafar helst af meiri forgangi, lengri vegalengdar á milli stoppistöðva og stærð biðstöðva en ekki hærri hámarkshraða. Almennt hækkar hámarkshraði almenningsvagna ekki með tilkomu BRTkerfis.

Mikilvægt er að kröfur um öryggissvæði séu uppfylltar og að ná athygli vegfarenda, sérstaklega á stoppistöðvum, til að auka umferðaröryggi. Jafnframt ætti að huga sérstaklega að skólaleiðum og umferðarþróun á framkvæmdatíma en skýrleiki og upplýsingagjöf eru þar lykilþættir.

Aðgerðir og lausnir í viðurkenndum leiðbeiningum um uppbyggingu almenningssamgangna, BRT og léttlesta, uppfylla í langflestum tilfellum kröfur um
umferðaröryggi og aðgengi fyrir alla. Því er lagt til að slíkum leiðbeiningum verði fylgt til hins ýtrasta.

Íslendingar eru ekki vanir BRT og það getur leitt til nýrra og ófyrirsjáanlegra áskorana í umferðaröryggi. Mikilvægt er því að framkvæma bæði umferðaröryggismat og umferðaröryggisrýni.

Borgarlína og umferðaröryggi
Höfundur

VSÓ Ráðgjöf

Skrá

borgarlinu-og-umferdaroryggi.pdf

Sækja skrá