PDF · mars 2011
Best­un leiða­vals til hálku­varna á Suðvestur­svæði Vega­gerðar­innar – hluti verk­efnis­ins Best­un hálku­varna

Hálkuvarnir eru einn veigamesti þátturinn í að tryggja umferðaröryggi vegfarenda að vetrarlagi. Skipulag og framkvæmd hálkuvarna er í stöðugri þróun innan
Vegagerðarinnar hér á landi. Núverandi skipulag byggir á reynslu þeirra aðila sem koma að framkvæmdinni.

Meginmarkmið verkefnisins er að finna hentugan fjölda og staðsetningar þjónustubíla ásamt því að ákvarða akstursleiðir fyrir hvern bíl, þannig að akstursvegalengdir séu
lágmarkaðar og tryggt sé að allir vegir og veghlutar, sem á að hálkuverja, séu hálkuvarðir innan skilgreinds þjónustutíma.

Verkefni þetta er liður í þróun sem hefur átt sér stað undanfarið og er ætlað að auka skilvirkni, áreiðanleika og hagkvæmni hálkuvarna á Suðvestursvæði Vegagerðarinnar.
Byggð eru upp fjögur líkön og nær hvert og eitt yfir mismunandi þjónustuflokka. Til samanburðar eru þrjú tilfelli gerð fyrir hvert líkan þar sem mismunandi þjónustusvæði
eru skilgreind fyrir hvern bíl sem sinnir hálkuvörnum. Auk svæðisskiptingar er skilgreindur hámarksaksturstími og hámarksakstursvegalengd fyrir hvern bíl í samræmi
við gæðakröfur Vegagerðarinnar. Á líkönin er beitt bestunaraðferð, í því skyni að finna hagkvæmustu akstursleið fyrir hvern bíl sem sinnir hálkuvörnum á svæðinu sem unnið er með.

Niðurstöður varðandi fjölda og staðsetningu bíla sýndu að hagkvæmast er að staðsetja bíla á alls átta stöðum víðs vegar um gatnanetið. Með því skipulagi ná níu bílar að
þjónusta allt svæðið þannig að gæðakröfum sé mætt. Niðurstöður sýna að með skýrri svæðisskiptingu og nokkuð ströngum skilyrðum varðandi hámarksakstursvegalengdir styttust heildarakstursvegalengdir um 14-17 km samanborið við núverandi svæðisskiptingu. Lokaniðurstöður allra líkana varðandi akstursvegalengdir bíla eru í ágætu samræmi við gæðakröfur Vegagerðarinnar og þær akstursleiðir sem settar eru fram tryggja að allir vegir og veghlutar, sem á að hálkuverja, séu hálkuvarðir innan skilgreinds þjónustutíma. 14-17 km stytting heildarakstursvegalengda getur gefið samtals 2.000-4.000 km styttingu ef horft er til eins árs með tilheyrandi lækkun á kostnaði. Trygging fyrir því að allir vegir og veghlutar séu hálkuvarðir skilar auknu umferðaröryggi á vegum Suðvestursvæðis Vegagerðarinnar.

Bestun leiðavals til hálkuvarna á Suðvestursvæði Vegagerðarinnar - hluti verkefnisins Bestun hálkuvarna
Höfundur

Sigurður Guðjón Jónsson, Haraldur Sigþórsson, HR

Skrá

bestun_leidavals_halkuvarn_sudvestursv_vegag.pdf

Sækja skrá