PDF · mars 2013
Bættar spár með umferðar­líkani höfuð­borgar­svæð­isins – Umferðar­líkan og skipu­lagstölur

Eftirfarandi rannsókn er á sviði umferðar og skipulags og er athugun á því hvort hægt sé að bæta spáhluta umferðarlíkans höfuðborgarsvæðisins með aukinni greiningu og betri flokkun skipulagstalna, þ.e. gagna um magn atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu Tilgangur. Rannsóknin miðar að því minnka frávik í spám fyrir grunnár líkansins, sem er árið 2010. Almennt er talið æskilegt að byggja spár á grunnári því þannig er hægt að stilla líkanið af út frá þekktu ástandi, sem er umferðartalningar grunnársins. Frávik í spám grunnárs geta skekkt framtíðarspár og því nauðsynlegt að þau séu eins lítil og mögulegt er. Nálgun. Rannsóknin byggir á rýni vísindagreina, greiningu á skipulagstölum og líkankeyrslum. Með rýni vísindagreina var augum sérstaklega beint að frávikum í umferðarspám og leiðum til að draga úr þeim. Við greiningu skipulagstalna var gerð tilraun með nýja flokkun gagna þar sem byggt er á notkun húsnæðis í stað gjaldflokka líkt og gert hefur verið. Í líkankeyrslum voru borin saman hin ýmsu tilvik og reynt að finna það tilfelli sem gaf bestu nálgun við umferðartalningar. Niðurstöður. Talsverður árangur náðist í því að lækka frávik frá umferðartalningum; frávikum yfir 5000 bílum fækkaði um 24% og fyrir götur með yfir 5000 bíla umferð fækkaði þeim um 29%. Auk þess leiddi rannsóknin í ljós misræmi í skipulagsgögnum þar sem gjaldflokki og skráðri notkun húsnæðis ber ekki saman.

Bættar spár með umferðarlíkani höfuðborgarsvæðisins
Höfundur

Grétar Mar Hreggviðsson, HR

Skrá

baettar_spar_umf_likan_hbsvaedis.pdf

Sækja skrá