PDF · september 2009
Alvar­leg umferð­arslys á höfuð­borgar­svæð­inu

Undanfarin ár hefur umferðarslysum, þar sem einn eða fleiri aðilar hljóta mikil meiðsli, fjölgað. Árið 2006 voru þessi slys 54 en 70 árið 2008. Sambærileg aukning hefur orðið á alvarlegum umferðarslysum í þéttbýliskjörnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Útafakstur er algengasta tegund alvarlegra umferðarslysa en þessi slys eiga sér stað að mestu í dreifbýli. Árekstrar bifreiða eru hins vegar algengari tegund alvarlegra umferðaslysa í þéttbýli. Af þessum 70 slysum voru 25 árekstrar bifreiða. Sjö af hverjum tíu þeirra áttu sér stað á gatnamótum. Algengasta orsök þessara slysa er að ökumaður sýnir ekki nægjanlega aðgát við akstur. Næst á eftir kemur svo sú ástæða að ökumaður sýnir af sér vítavert gáleysi sökum ölvunar eða lyfja.

Alls hlutu 18 gangandi vegfarendur mikil meiðsli á höfuðborgarsvæðinu árið 2008. Fimm slysanna áttu sér stað á gangbraut, níu á akbraut og þrjú á bílastæði. Eitt slys gerðist á gangstétt. Flestir hinna slösuðu voru 55 ára eða eldri. Orsakir þessara slysa skiptist nokkuð jafnt milli ökumanna og hinna gangandi vegfarenda. Í um helmingi tilfella má rekja slys til þess að gangandi vegfarandi gekk inn á akbraut í veg fyrir bifreið. Hinn helminginn má rekja til aðgæsluleysis ökumanns.

Í átta af 14 alvarlegum bifhjólaslysum missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjólinu og féll í götuna, bifreið ók í veg fyrir bifhjól í fjórum slysanna og í tveimur var bifhjóli ekið aftan á bifreið. Algengustu meiðslin í þessum slysum var viðbeins- og handleggsbrot.

Í skýrslunni koma fram tillögur til úrbóta, nefndin leggur meðal annars til að ökumenn bifhjóla stundi reglubundið æfingar á viðbrögðum við óvæntum aðstæðum í umferðinni, haldið verði áfram á þeirri braut að aðgreina umferð óvarinna vegfarenda og umferð ökutækja og einfalda og bæta umferðarmikil gatnamót.

Alvarleg umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu
Höfundur

Ágúst Mogensen, Sævar Helgi Lárusson, RNU

Skrá

alvarleg-slys-a-hofudborgarsvaedinu.pdf

Sækja skrá