Árlega eiga sér stað umferðarslys á Íslandi sem rekja má að nokkru eða öllu leyti til vindaáhrifa. Á tímum loftslagsbreytinga má álykta að öfgar í veðurfari muni fara stigmagnandi. Því er mikilvægt að hafa í höndum tól sem hjálpar til við að sporna gegn alvarlegum slysum vegna veðurs og vinda – tól sem metur hvenær öruggt er að ferðast og hvenær ekki. Markmið þessa verkefnis er að útbúa einfalt líkan sem metur hvers lags vindaðstæður eru hættulegar ökutækjum. Vindaðstæður eru þá vindhraði og vindstefna miðað við legu vegar. Önnur atriði sem tekin eru til greina í líkaninu eru vegaðstæður, hraði ökutækis og tegund þess. Ökutækjum er skipt í þrjá flokka miðað við stærð og þyngd: smárútur, tómar og hálftómar rútur og flutningabílar og fullar eða fulllestaðar rútur og flutningabílar. Líkanið byggir á heimildum, útreikningum og upplýsingum sem þegar eru til um þessi fræði og er ætlað til þess að hjálpa Vegagerðinni að ákveða hvenær skal loka vegum vegna veðurs. Þessi skýrsla lýsir upplýsingaöfluninni, útreikningum og þróun líkansins. Einnig er líkanið prófað fyrir raunveruleg slys og uppsetningu notendaviðmóts lýst. Að lokum eru settar fram tillögur að framhaldi þessa mikilvæga verkefnis.
Erla Hrafnkelsdóttir