PDF
Áhrif stað­setn­ingar og útfærslu mislægra gatna­móta á umferðarör­yggi

Í verkefninu voru borin saman níu mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu í þeim tilgangi að kanna slys sem á þeim verða og hvort staðsetning og útfærsla gatnamótanna hefur áhrif á umferðaröryggi. Einnig voru slys við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar skoðuð og tekin til samanburðar við slys mislægu gatnamótanna. Verkefnið var unnið af VSÓ Ráðgjöf með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Tengiliður við Vegagerðina við vinnslu verkefnisins var Katrín Halldórsdóttir hjá Umferðardeild Vegagerðarinnar.

Tilgangur og markmið
Að rannsaka hvort það sé samband á milli gerðar og staðsetningar mislægra gatnamóta og slysatíðni, alvarleika slysa og tegunda slysa. Að bera niðurstöðurnar saman við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en umræða hefur verið um gerð mislægra gatnamóta á þeim stað undanfarin ár.

Um mislæg gatnamót
Rannsóknir sýna að þjónustustig gatnamóta í plani minnkar þegar umferðarmagnið sem fer um þau er orðið mjög mikið. Fjöldi slysa eykst og þá sérstaklega slys þar sem einungis eignatjón verður. Almennt er talið að líkur á slysum hækki með auknu umferðarmagni en þegar umferðarmagnið er orðið það mikið að afkastagetan minnkar verður umferðin hægari og slysin þar af leiðandi vægari. Mislæg gatnamót hafa verið byggð til að bæta umferðarflæði og minnka líkur á árekstrum. Margar útfærslur eru til á mislægum gatnamótum, t.d. tígulgatnamót (e. diamond), trompet (e. trumpet), heill smári eða hálfur smári (e. full or partial clover leaf), SPUI (e. single-point urban interchange) o.fl. Einnig hafa hringtorg verið notuð í mislægum gatnamótum. Mislæg gatnamót geta verið með alveg aðskildar akstursstefnur (e. grade-separated junctions) eða aðskildar að hluta (partly grade-separated)(Elvik, 2009). Alveg aðskilin mislæg gatnamót þykja öruggari en mislæg gatnamót sem eru aðskilin að hluta. Gatnamót sem eru mislæg að hluta eru talin öruggari en kross-gatnamót. Ef krossgatnamót eru hins vegar með hraðamyndavélum eru þau talin öruggari en mislæg gatnamót að hluta. Marktækur munur hefur ekki fundist milli ljósastýrðra gatnamóta í plani og gatnamóta sem eru mislæg að hluta (Elvik, 2009).

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi
Höfundur

VSÓ ráðgjöf

Skrá

ahrif-stadsetningar-og-utfaerslu-mislaegra-gatnamota-a-umferdaroryggi.pdf

Sækja skrá