PDF · Útgáfa 7009331-000-CRP-0001 — ágúst 2019
Áhrif sjálf­virkni í bílum á umferðar­rýmd

Fjórða iðnbyltingin er hugtak sem vísar til tækniframfara undanfarinna ára og þeirra sem eru í vændum. Þar er aðallega átt við gervigreind, róbótatækni, samskiptanet hlutanna (Internet of Things,
IoT), sjálfvirknivæðingu þ.m.t. farartækja og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.

Það sem hefur drifið áfram síaukna sjálfvirknivæðingu og þróun sjálfkeyrandi bíla eru væntingar um
- aukið öryggi: Fækkun slysa vegna mannlegra mistaka.
- meiri skilvirkni og minni umhverfisáhrif: Að nýjar samgöngulausnir auki skilvirkni samgöngukerfa og minnki tafir ásamt því að jafna akstur sem minnkar umhverfisáhrif.
- aukin þægindi og tímavirði: Gefi farþegum möguleika á að „gera annað“ meðan kerfið sér um aksturinn.
- félagslegt frelsi: Bætt aðgengi og hreyfanleiki einstaklinga sem ekki geta keyrt sjálfir.

Þróun sjálfvirknitækni bíla hefur því fleygt fram og nokkrir bílaframleiðendur hafa þegar tilkynnt um komu sjálfvirkra bíla eða jafnvel sjálfkeyrandi bíla á markað árið 2020. Slíkt setur pressu á skipulagsog samgönguyfirvöld og löggjafann varðandi það að kanna hvort, hvernig og hvenær beri að undirbúa innviði fyrir slíka tækni. Þó er enn óljóst hvaða stefnu þróunin mun taka. Munu bílar hafa innbyrðis samskipti um götuval til að dreifa umferðinni betur um vegakerfið eða mun hún einungis snúa að því að bæta viðbragstíma bifreiða? Mun þróunin nýta sér kosti deilihagkerfisins, þ.e. að einkabílaeign minnki til muna, farþegar panti sér far gegnum miðlun og fjölskyldur samnýti bíl t.d.? Mun þróunin hafa áhrif á eignamynstur? Þessum vangaveltum hefur verið velt upp í fjölda erlendra rannsókna sem leiða til mismikilla áhrifa á samfélagið, sumar sýna algjöra byltingu á meðan aðrar eru hófsamari.

Markmið verkefnisins er að skoða nýlegar rannsóknir á viðfangsefninu og reyna að leggja mat á það hvaða áhrif tilkoma sjálfvirkni í bílum mun hafa á afkastagetu stofnvega höfuðborgarsvæðisins.

Áhrif sjálfvirkni í bílum á umferðarrýmd
Höfundur

Mannvit

Skrá

ahrif-sjalfvirkni-i-bilum-a-umferdarrymd.pdf

Sækja skrá