PDF · apríl 2023
Virði tölfræði­legs lífs og mat á tíma­virði

Víða um heim er kostnaðar- og ábatamat forsenda þess að ráðist sé í stórar fjárfestingar, svo sem uppbyggingu innviða. Ekki er skynsamlegt að fara í framkvæmdir nema ætlaður ábati sé meiri en kostnaður, eða með öðrum orðum að útlit sé fyrir að verkefnið auki velferð. Mikilvægt er að öll velferðaráhrif séu metin til fjár (t.d. Sartori (2014)). Kostnaðar- og ábatamat er öflugt hjálpartæki til þess að forgangsraða verkefnum, ef vel er að því staðið. Í handbók Evrópusambandsins um kostnaðar- og ábatamat er lögð áhersla á að meta þurfi til fjár þau gæði sem ekki eru á markaði. Þar á meðal eru hvers kyns umhverfisáhrif framkvæmda. Í þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem samþykkt var á alþingi 20. mars 2012 kemur fram að bæta þurfi ákvæði um kostnaðar- og ábatagreiningu við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þannig að tryggt sé að umhverfiskostnaður sé alltaf metinn til fjár áður en ráðist er í framkvæmdir. Stefnt er að því að þetta verði gert fyrir lok árs 2013. Íslendingar hafa oftar en einu sinni fengið ábendingar frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) um að beita þurfi kostnaðar- og ábatamati þegar stefna hins opinbera er mótuð (sjá t.d. OECD (2011), bls. 44, OECD (2013), bls. 45, OECD (2017), bls. 89). Í riti OECD um Ísland frá 2013 kemur raunar fram að nú orðið styðjist íslenskir stjórnmálamenn við niðurstöður spurningakannana þar sem umhverfiskostnaður verkefna sé metinn (OECD (2013), bls. 52), en enginn fótur er fyrir því.

Á Íslandi eru samgönguyfirvöld eins og Vegagerðin komin lengst í vönduðu kostnaðarog ábatamati. Þó eru enn talsverðir vankantar á því. Nefna má að mat á virði tölfræðilegs lífs, sem svo er kallað, og mat á ferðatíma er byggt á dönskum mælingum (sjá t.d. Cowi og Mannvit (2020)). Sama gildir um greiðsluvilja vegna slæmra ytri áhrifa eins og útblásturs- og hávaðamengunar. Þá verður ekki séð að velferðartap af raski á opnum svæðum eða útsýni sé metið til fjár.

Virði tölfræðilegs lífs og mat á tímavirði
Höfundur

Kári Kristjánsson, Sigurður Jóhannesson, Hagfræðistofnun

Skrá

nr_1800_917_og_918_virdi-tolfraedilegs-lifs-og-mat-a-timavirdi.pdf

Sækja skrá