Markmið verkefnisins um skráningu vegminja er að veita Vegagerðinni yfirsýn yfir þær minjar sem tengjast starfseminni og meta verndargildi þeirra. Í fyrri áföngum hefur verið tekin saman skrá yfir alla sögulega muni í eigu Vegagerðarinnar og hafist handa við að skrá mannvirki á Suðaustur- og Austurlandi. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nota niðurstöður verkefnisins til að móta framtíðarstefnu varðandi minjavernd hjá stofnuninni.
Í þessari áfangaskýrslu verkefnisins er sagt frá tuttugu og átta minjastöðum á Suðvestur- og Vesturlandi. Minjarnar eru af fjórum gerðum: þjóðleiðir, minjavegir, minjabrýr og vitar. Valdar vegminjar eiga að vera einkennandi fyrir sögu vegagerðar frá upphafi og gefa góða mynd af sögu hennar. Í skýrslunni kemur fram að ein forsenda þess að hægt sé að vernda mannvirki sé að þau séu í einhverri notkun. Til dæmis má nýta gamlar brýr og vegi sem reið- og gönguleiðir. Erfitt getur verið að varðveita gamla vegi er þeir eru ekki lengur í notkun, þar sem vatn og vindar eyða þeim fljótt.
Í skýrslunni er hverjum og einum af þessum tuttugu og átta minjastöðum lýst, gefið sögulegt yfirlit og fjallað um verndargildi og staðsetning sýnd á korti. Auk þess eru ljósmyndir af hverjum og einum.
Fram kemur að þrjú af mannvirkjunum sem fjallað er um, eru friðlýst. Það eru vitarnir á Reykjanesi og við Garðskaga og brúin yfir Bláskeggsá í Hvalfirði. Nokkur mannvirkjanna hafa verið lagfærð eða endurbyggð, önnur eru metin þannig að ekki þurfi að fara í verndunaraðgerðir og svo er bent á að huga þurfi að verndun nokkurra þeirra. Bent er á að alltaf þurfi að meta hvort verndun mannvirkjanna sé forsvaranleg, nema ef aldur þeirra og saga gefi sérstakt tilefni til. Eins og áður er sagt getur verið erfitt að vernda mannvirki sem ekki eru í einhverri notkun.
Arna Björk Stefánsdóttir