PDF · mars 2019
Vegminj­ar, Norð­ur- og Norð­austur­land

Að beiðni minjanefndar Vegagerðarinnar var ráðist í heildarskráningu á munum í eigu stofnunarinnar vorið 2014. Markmið verkefnisins er að veita Vegagerðinni yfirsýn yfir þær vegminjar sem til eru í fórum stofnunarinnar og meta verndargildi þeirra. Tilgangurinn er að fá sem heildstæðasta mynd af þeim munum sem geta talist til vegminja hér á landi. Niðurstöðu skýrslunnar verður hægt að nýta til að móta framtíðarstefnu varðandi minjavernd hjá Vegagerðinni.

Vinnu við skráningu vegminja var skipt í tvo áfanga. Í fyrri áfanga (2014-2015) voru munir í eigu Vegagerðarinnar skráðir (munir í flokki 2, 3, 4 og 5). Vinnu við þessa skráningu lauk í mars 2015 og var niðurstöðum skilað í munaskrá/skýrslu sem aðgengileg er á vefsíðu Vegagerðarinnar. Í öðrum áfanga (sem hófst í apríl 2015) var sjónum beint að skráningu vegminja umhverfis landið (munir í flokki 1). Árið 2015-2016 var tekin saman skrá yfir vegminjar á Suðaustur- og Austurlandi og var niðurstöðum skilað í skýrslu til Vegagerðarinnar í mars 2016. Árið 2016-2017 lauk vinnu við skráningu vegminja á Suðvestur og Vesturlandi. Hægt er að nálgast skýrslurnar á vefsíðu Vegagerðarinnar. Árið 2017-2018 voru skoðaðar vegminjar á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi.

Vegminjaskráin sem hér er tekin saman samanstendur af sextán minjastöðum á Norður- og Norðausturlandi. Vegminjarnar dreifast um svæðið frá Akureyri í norðri til
Egilsstaða og Jökuldals í austri. Vegminjarnar sem fjallað er um hér eru af fjórum gerðum: Þjóðleiðir og minjavegir, minjabrýr og vitar. Tekin er saman lýsing á einstökum 7 mannvirkjum, stærð mannvirkis skráð, ef það á við, farið er yfir sögu þess og verndargildi metið. Valdar vegminjar eiga að gefa góða mynd af sögu vegagerðar á Íslandi en forsenda þess að hægt sé að vernda mannvirki er að þau séu áfram í notkun þó nýrri mannvirki hafi tekið við upphaflegu hlutverki þeirra. Gamlar brýr og vegi má nýta áfram sem reið- og gönguleiðir, eins og algengt er. Erfitt er að varðveita gamla vegi ef þeir eru ekki lengur í notkun þar sem vatn og vindar eyða þeim fljótt, sömu sögu má segja um gamlar brýr. Því verður áhersla lögð á að skrá þá vegkafla, vita, brýr og þjóðleiðir sem eru á einhvern hátt enn í notkun og mögulegt er að halda við. Ljóst er að ekki er hægt að vernda allar þær vegminjar sem teknar eru til skoðunar hér. Segja má að þessi skýrsla sé góð heimild um þær vegminjar sem eiga sér framtíðarhlutverk en ekki síður heimild um þær vegminjar sem munu óhjákvæmilega hverfa á næstu árum og áratugum.

Vegminjar, Norður- og Norðausturland
Höfundur

Arna Björk Stefánsdóttir

Skrá

vegminjar2018-19-minnkud.pdf

Sækja skrá