Í þessu verkefni er meðal annars verið að skoða ferðavenjur ungs fólks í Reykjavík miðað við búsetu sem og samband ferðavenja og lífsviðhorfs auk losunar gróðurhúsalofttegunda. Gögnum var safnað meðal fólks á aldrinum 25 til 40 ára sem bjó í Reykjavík á árinu 2017 með svokallaðri „softGIS“ aðferð. Hluti svarenda voru svo
spurðir ítarlegar á árunum 2018 og 2019.
Ýmsar niðurstöður koma út úr könnuninni. Meðal þess sem fram kemur er að flestir ferðast um í einkabíl (36%). 13% ferðast fótgangandi, 8% á reiðhjólum og sama hlutfall með strætó. Um fimmtungur svarenda ferðast á mismunandi vegu og 14% eru svokallaðir „non-commuters“, þ.e. þeir sem ekki skráðu ferð til vinnu eða náms.
Þá kemur fram meðal annars að þeir sem nota einkabílinn eru líklegri til að vera í fullri vinnu, hafa örlítið hærri laun og búa utan miðbæjarins, oft á svæðum þar sem lítið aðgengi er að almenningssamgöngum. Þeir sem velja mismunandi ferðamáta eru oftast í fullri vinnu en eiga börn. Hlutfallselega margir s.k. „noncommuters“ eru konur, eru með lægri tekjur og menntun og margir tala ekki íslensku. Þeir sem fara um fótgangandi búa oftast nær miðbænum og margir eru í barnlausum samböndum eða búa einir. Ferðist þú um á hjóli er líklegra að þú sért karlmaður, með fulla vinnu eða í námi, einhleypur og talir íslensku. Einnig er líklegt að hjólreiðamenn búi nær miðbænum en aðrir.
Greint er frá mati á hlut mismunandi ferðamáta til árlegrar losunar gróðurhúsalofttegunda (CO2). Það kemur fram að stærsti hluti þess hjá öllum aðilum í könnuninni er vegna ferða á milli landa. Annars er heildarhlutur þeirra sem ferðast í bíl hæstur, en lægstur er hlutur svo kallaðra „non-commuters“.
Afstaða fólks, sem ferðast á mismunandi hátt, til umhverfismála og lífsstíls er greind og sett fram í skýrslunni út frá svörum við ýmsum spurningum. Meðal annars kemur fram að þeir sem ferðast með strætó hafi áhyggjur af umhverfismálum og það sama gildir um s.k. „non-commuters“. Þeir sem ferðast með bíl hafa minni áhyggjur, en
vita af vandamálinu. Þegar kemur að lífsviðhorfi kemur fram að þeir sem ferðast á bílum eru ánægðastir með það hlutskipti en þeir sem fara með strætó eða ferðast lítið („non-commuters“) eru minnst ánægðir, sem gæti bent til að val þeirra á ferðamáta sé ekki fyllilega frjálst, en mótað af stöðu þeirra. Fótgangendur eru ánægðastir með lífið og hjólreiðamenn eru ánægðastir með heilsufar sitt. Athygli vekur að þeir sem ferðast á bílum telja sig hafa minni tíma en aðrir til að sinna hlutum sem þá langar til að gera.
Michał Czepkiewicz, Jukka Heinonen, Áróra Árnadóttir, Kamyar Hasanzadeh - HÍ