PDF · janúar 2017
Ferða­mynstur og vinnu­sóknar­svæði – Norð­anverð­ir Vest­firð­ir

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka búsetu starfsfólks á vinnustöðum á norðanverðum Vestfjörðum, til að fá hugmynd um ferðamynstur (e. Commuting patterns) og geta þannig skilgreint vinnusóknarsvæði. Áður hafa verið unnin samskonar verkefni annars vegar fyrir MiðAusturland og höfuðborgarsvæðið (styrkt af Vegagerðinni) sem og fyrir Akureyri og Húsavík (styrkt af Byggðarannsóknasjóði). Markmiðið með verkefnunum er að búa til gagnasafn um ferðamynstur á öllu landinu. Slíkt gagnasafn er talið styrkja grunngreiningar sem vinna þarf í tengslum við Samgönguáætlun og fleira.

Erlendis eru athuganir sem þessar unnar út frá gögnum frá hagstofu viðkomandi lands. Slíkar upplýsingar eru hins vegar ekki aðgengilegar hér og því hefur hér verið valið að beita spurningakönnunum.

Tæplega 10% vinnandi fólks á aldrinum 20-67 ára á norðanverðum Vestfjörðum tók þátt í verkefninu. Meðal niðurstaðna sem koma fram eru að langstærsti hluti svarenda vill vinna í 5-10 mín. ferðalengd frá heimili sínu sé þess kostur og eingöngu um 10-15% svarenda eru tilbúnir að ferðast meira en 30 mín. daglega til vinnu, jafnvel þó um draumastarf væri að ræða. Þá kemur fram að miðað við þær forsendur sem settar eru upp fyrir skilgreiningu á vinnusóknarsvæði, megi skilgreina tvö slík á norðanverðum Vestfjörðum, annars vegar Ísafjörður, Bolungarvík, Hnífsdalur, Flateyri, Suðureyri og Súðavík sem eitt svæði og hins vegar Þingeyri sem annað. Byggðastofnun hafði hins vegar áður skilgreint þetta allt sem eitt vinnusóknarsvæði. Ísafjörður er vinnusóknasvæði fyrir bæjarkjarnana í kring utan Þingeyrar, en Ísfirðingar eru ekki mikið að
sækja vinnu utan bæjarins.

Fram koma einnig upplýsingar um fleiri atriði en að ofan greinir, sem voru með í spurningalistanum. Til dæmis ferðamáti, afstaða til mismunandi slitlaga á vegum og skoðun á nokkrum mismunandi vegaköflum á norðanverðum Vestfjörðum. Þar kemur m.a. fram að Súðavíkurhlíð er talinn mest fráhrindandi vegkaflinn sem spurt var um.

Í skýrslunni kemur enn og aftur fram eindregin ósk höfundar um að unnt verði að gera athuganir sem þessar mögulegar á landsvísu í gegnum skattaframtöl. Bent er á að hugsanlega sé skekkja í úrtakinu, þar sem gengið var í fyrirtæki og hringt í fólk til að fá það til að svara spurningalistanum. Talið er að sú aðferð verði til þess að meiri hluti svarenda verði háskólamenntað fólk í skrifstofustörfum.

Ferðamynstur og vinnusóknarsvæði - Norðanverðir Vestfirðir
Höfundur

Lilja G. Karlsdóttir - Viaplan

Skrá

ferdamynstur-og-vinnusoknarsvaedi_vestfirdir-002.pdf

Sækja skrá