PDF · janúar 2018
Ferða­mynstur og vinnu­sóknar­svæði, Akra­nes, Selfoss og Hvera­gerði

Tilgangur verkefnisins var að rannsaka ferðamynstur (e. commuting patterns) fólks sem er búsett og/eða vinnur á Akranesi, Selfossi og í Hveragerði, til þess að geta skilgreint vinnusóknarsvæði. Áður hafa verið unnin sams konar verkefni fyrir Mið-Austurland, Höfuðborgarsvæðið og Norðanverða Vestfirði, styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og fyrir Akureyri og Húsavík, styrkt af Byggðarannsóknasjóði.

Erlendis er ferðamynstur fundið þannig að búseta fólks og starfsstöð eru samkeyrð í gagnabönkum hagstofu viðkomandi lands. Hérlendis finnast upplýsingar um starfstöðvar hins vegar ekki í opinberum gagnagrunnum, heldur einungis hjá fyrirtækjunum sjálfum eða bara alls ekki. Vonir standa til að slíkar upplýsingar verði aðgengilegar á næstu árum, til dæmis gegnum skattframtöl, enda hefur verið vel tekið á ábendingar um það hjá hlutaðeigandi aðilum. Eina leiðin til að kanna þetta hérlendis hingað til er því að spyrjast fyrir hjá fyrirtækjum og starfsmönnum sjálfum.

Í þessu verkefni var stuðst við spurningakönnun. Af vinnandi fólki á aldrinum 20-67 ára á Akranesi, Selfossi og í Hveragerði, tóku 698 þátt (5,8% af heildarfjöldanum). Auk þess fengust upplýsingar frá Norðuráli á Grundartanga um búsetu ríflega 700 starfsmanna þar eftir póstnúmerum.

Í skýrslunni kemur fram að árið 2008 var gert kort af vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða á Íslandi í samvinnu við Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélög. Kortið hefur síðan verið uppfært og er kort frá 2014 birt í skýrslunni. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að vinnusóknarsvæði Akraness og Selfoss virðast töluvert minni en kort Byggðastofnunar sýnir. Fyrir Akranes benda niðurstöður til að vinnusóknasvæði bæjarins sé eingöngu AkranesHvalfjarðarsveit og höfuðborgarsvæðið, en mjög fáir sækja vinnu í norðurátt. Fyrir Selfoss benda niðurstöður til að vinnusóknarsvæðið nái frá höfuðborginni og að Selfossi og mjög fáir þátttakendur sækja vinnu austur í átt að Hellu og Hvolsvelli.

Það kemur einnig fram Niðurstöður verkefnisins benda einnig skýrt til þess að hafi fólk möguleika á því, kýs það að vinna nálægt heimabyggð. Af því tilefni er því velt upp hvort framtíðarstefna í skipulagsmálum ætti að vera sú að reyna að styrkja fleiri byggðarsvæði í stað þess að hvetja til lengri ferðalaga innan stærri atvinnusvæða.

Ferðamynstur og vinnusóknarsvæði, Akranes, Selfoss og Hveragerði
Höfundur

Lilja G. Karlsdóttir - Viaplan

Skrá

ferdamynstur-og-vinnusoknasvaedi-akranes_selfoss_hveragerdi.pdf

Sækja skrá