Upp á síðkastið hefur áhugi á fyrirbærinu “ferðamannavegur” aukist verulega. Ein af ástæðunum er sú að í Noregi hefur verkefni af þessu tagi heppnast vel og vakið mikla athygli. Með því að endurskilgreina gamla vegi, gera þá aðgengilega með góðu viðhaldi, merkingum, fagurfræði í hönnun og tengingu við sögu og hefðir svæðisins hefur Norðmönnum tekist að auka framboð sitt til ferðamanna til muna og þá sérstaklega til afskekktra staða á landsbyggðinni. Ferðamannavegir Norðmanna höfða fyrst og fremst til þeirra sem ferðast með fólksbílum, á hjólum og eru gangandi, þó að sumir veganna séu einnig í almennri notkun. Miðast hönnun, viðhald og frágangur mannvirkja aðallega við þessa notendur. Aðgengileg vefsíða með öllum upplýsingum varðandi staðsetningu, aðkomu og þjónustu á vegunum er til staðar sem auðveldar notendum að skipuleggja ferðalag sitt1. Íslendingar hafa mikla möguleika á að nýta sér sína gömlu vegi til gleði, fróðleiks og ánægju fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Ein af ástæðunum fyrir því er að Íslendingar hafa í gegnum söguna nýtt sér landleiðina milli staða og er á mörgum stöðum hægt að sjá kynslóðir vega hlið við hlið í landslaginu. Vegir og vegamannvirki sem enn eru áþreifanleg eru líka minnisvarði um hönnun, fagurfræði og handverk fyrri tíma sem eru jafnvel að deyja út. Margir hinna gömlu vega liggja í gegnum stórkostlegt umhverfi sem við gleymum stundum að njóta þar sem við brunum í gegnum landslagið með það að markmiði að komast sem fyrst á milli A og B.
Arnhildur Pálmadóttir