Þessi skýrsla gerir grein fyrir niðurstöðum rannsóknar Rannsóknamiðstöðvar ferðamála á hlutverki Vegagerðarinnar í uppbyggingu og þróun áfangstaða og ferðamannaleiða á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að draga fram það ferli sem hefur átt sér stað við þróun þriggja ferðamannaleiða Íslandi, en þær eru Eldfjallaleiðin, Vestfjarðaleiðin og Norðurstrandarleið. Kjarninn í þróun þessara ferðamannaleiða er vegakerfið sjálft, oft utan helstu alfaraleiða. Kannað var hvaða aðilar hafi komið að ákvörðunartöku, hvernig samtali milli hagaðila var háttað og hver upplifun þeirra var af því samtali. Áhersla var á hlutverk Vegagerðarinnar í vöruþróunarferli í samhengi ferðaþjónustunnar og hverjar helstu áskoranir og ávinningur ólíkra hagaðila eru við uppbyggingu og viðhald ferðamannaleiða og áfangastaða hér á landi. Rannsóknin byggði á viðtölum við einstaklinga sem starfa hjá Vegagerðinni, hjá markaðsstofum landshlutanna og sveitarfélögum/samtökum sveitarfélaga og hafa innsýn í samband Vegagerðarinnar og ferðaþjónustu.
Ása Marta Sveinsdóttir og Eyrún Jenný Bjarnadóttir