PDF · Útgáfa 86038-011 — ágúst 2017
Algild hönn­un umferðar­mann­virkja – saman­burður á norræn­um hönn­unar­regl­um

Eitt af markmiðum samnings Sameinuðu Þjóðanna um jöfn réttindi allra að samfélaginu, er að allir hafi sama aðgang og möguleika á að lifa sjálfstæðu lífi og ein forsenda þess er að geta ferðast eða hreyft sig frá einum stað til annars. Þetta felur í sér að umhverfið sé hannað þannig að tekið sé tillit til allra, með aðgengi og notagildi í huga. Slík hönnun hefur verið nefnd algild hönnun á íslensku.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur talsvert verið rannsakað hvernig best er að hanna umhverfið á þennan hátt. Markmið þessa verkefnis var að skoða hönnunarleiðbeiningar og handbækur um algilda hönnun í þessum löndum, greina hvað sé líkt og hvað ólíkt og geta þannig lagt grunn að íslenskri handbók um algilda hönnun.

Í skýrslunni er farið yfir ýmis atriði sem taka þarf tillit til í algildri hönnun og hvernig þau eru meðhöndluð í löndunum. Rætt er um ýmsar hönnunarforsendur, viðhald, umferð og umhverfi, mannvirki tengd almenningssamgöngum, upplýsingar og skilti og gróður.

Niðurstaða athugananna er að í flestum tilvikum eru meginreglur og kröfur er varða aðgengi sambærilegar í löndunum þremur. Nokkur munur er þó á hversu ítarlega er fjallað um hvern þátt algildrar hönnunar og því sem henni tengist og sum atriði eru ekki tekin fyrir í öllum löndunum. Venjur og aðstæður í hverju landi koma einnig fram, til dæmis er löng hefð fyrir notkun reiðhjóla í Danmörku og endurspeglast það í því að mikil áhersla er lögð þar á skýrann aðskilnað hjólandi og gangandi umferðar. Fleiri atriði um mun eru tiltekin í skýrslunni. Minnt er á að algild hönnun er lifandi ferli sem þarf stöðugt að þróa og endurbæta og það eru notendur sem vita helst hvaða
lausnir virka. Algild hönnun er nauðsynleg fyrir suma, en gangleg fyrir alla. Í framhaldi af þessu verkefni, er nú hafin vinna við gerð handbókar um algilda hönnun í samvinnu Verkís, Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.

Algild hönnun umferðarmannvirkja - samanburður á norrænum hönnunarreglum
Höfundur

Berglind Hallgrímsdóttir og Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir - Verkís

Verkefnastjóri

Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir

Skrá

algild-honnun-umferdarmannvirkja-samanb-norraenar-honnunarreglur.pdf

Sækja skrá