PDF · maí 2018
Tjóna­grein­ing á brúnni yfir Steinavötn í Suður­sveit

Á síðustu árum hefur tjónum á brúarmannvirkjum fjölgað á heimsvísu vegna skorts á eftirliti
og nauðsynlegu viðhaldi sem og vegna aukningar á náttúruhamförum og aftakaatburðum.
Vatnavextir í ám á Suðurlandi eru tíðir og geta orðið vegna aftakaúrkomu, hlýindakafla að
vetri með leysingum, og vegna jökulhlaupa af völdum jarðhitavirkni eða eldgoss undir jökli.
Þessir atburðir eru oftast handahófskenndir. Það getur því reynst erfitt að taka að fullu tillit
til þessara atburða við hönnun brúa og annarra mannvirkja. Þetta verkefni fjallar um að
skrásetja og greina tjón á brúnni yfir Steinavötn í Suðursveit sem eyðilagðist í flóðum haustið
2017. Áin gróf undan millistöpli sem seig við það og skemmdi yfirbyggingu. Brúin var í
kjölfarið dæmd ónýt og bráðabirgðabrú byggð í staðinn. Í verkefninu var bakgrunnur
stauraprófa á Íslandi kannaður. Gerður var samanburður á niðurstöðum eldri
timburstauraprófana í nánd við Steinavötn, við stöðufræðilega útreikninga. Allir brúarstöplar
brúarinnar yfir Steinavötn voru grundaðir á timburstaura og var burðarþol þeirra reiknað. Til
þess að líkja við sigi millistöpuls var reiknað burðarþol hans sem fall af skolunardýpt með
aðferð Meyerhof. Samkvæmt útreikningum þá bendir til þess að skolast hafi undan
millistöpli allt frá 4,25 m til 4,75 m sem leiddi til sigs. Í þessu verkefni var einnig gert líkan
af brúnni með forritinu SAP2000 og reiknaðir voru helstu sniðkraftar. Vettvangsferð
Vegagerðarinnar og prófanir gáfu til kynna að flotliður hefði myndast við ásetur millistöpla.
Útreikningar styðja við þá kenningu en reiknað beygjuvægi, sem myndaðist vegna
eiginþyngdar og sigs millistöpuls, var hærra en sjálft vægisþol brúarinnar við ásetur
millistöpla sitthvorum megin við hann.

Tjónagreining á brúnni yfir Steinavötn í Suðursveit
Höfundur

Halldór Bogason

Verkefnastjóri

Leiðbeinendur Bjarni Bessason Guðmundur Valur Guðmundsson Sigurður Erlingsson

Skrá

tjonagreining-a-brunni-yfir-steinavotn-i-sudursveit.pdf

Sækja skrá