Vegna verkefnisins: "Ummyndun gabbrós við Breiðárlón og áhrif hennar á eiginleika þess"
Ummyndun í gabbrói frá Hoffelli, Eystrahorni, Vestrahorni og innskoti við Breiðárlón var greind með tilliti til ummyndunarsteinda og tengsla þeirra við frumsteindir og vatnsleiðara bergsins. Jarðhitaummyndun innskotanna er bundin vatnsleiðurum þeirra, einkum greinilegum tektónískum brotflötum en einnig kólnunarsprungum. Steindafylki ummyndunarinnar eru afar fábrotin en myndast greinilega í tveimur megináföngum. Upphafsummyndunin einkennist af niðurbroti plagíóklas-feldspats (bytownít-andesín) og tæringu við yfirborð klínópýroxens (ágít) og málmsteinda (ilmenít). Epidót myndast gjarnan miðsvæðis í feldspatkristöllum en kvars, albít og K-feldspat myndast umhverfis. Albít og K-feldspat myndast einnig ásamt kalsíti á jöðrum plagíóklas-kristallanna þótt ekki myndist þar epidót. Klórítþekja myndast við brúnir ágítsins en ólivín (sjaldgæft) hvarfast til fulls og skilur efir klórít-fyllt launform (pseudomorph). Kalsít og pýrít koma einnig fyrir, einkum milli frumsteinda eða við sprunguveggi. Lokastig fyrra ummyndunaráverkans markast af samfelldri epidótfyllingu í sprungum, samfelldri albít og K-feldspatþekju í plagíóklasinu og loks algerri þéttingu bergsins. Síðari ummyndunaráverkinn er merkjanlegur þar sem endurtekning verður á sprungumyndun og leggst þannig yfir upphafsummyndunina. Síðari áverkinn einkennist af klórít-kvars fyllingu í sprungum og frekari klórít-myndun við ágít-kristallana. Einnig virðist epidót-hlutur bergsins aukast umhverfis sprungurnar. Sprungufyllingarnar virðast í upphafi vera einsleitt klórít en algengast er að klórít-kvars sambreyskja fylli sprungurnar og að lokum myndast hreinar kvars-fyllingar, sem jafnvel liggja samhliða klórít-fyllingunum eða skera þær. Niðurstaðan er að ummyndun innskotanna hefjist að marki í klórít-epidót ham (facies) umhverfis vatnsleiðara, sem myndast við tektóníska áverka. Endurteknir áverkar valda frekari ummyndun í klórít-epidót ásýnd. Wollastonít fannst ekki í þessari könnun en kalsít er ávallt til staðar, sem bendir til að hitastig ummyndunarinnar hafi verið um og undir 300 °C.
Snæbjörn Guðmundsson - HÍ