Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum slitmælinga á þrettán stuttum tilraunaköflum. Slitlagið á þeim var þrenns konar, steypa, malbik og endurlögn (repave). Umferðin var á bilinu 5.000-20.000 ÁDU á tveim akreinum.
Slit er mjög breytilegt innan slitlagsgerðar. Það er viðlíka mikið á malbiki og endurlögn, en nokkru minna á steypu. Slitið skarast milli slitlagsgerða eins og eftirfarandi upptalning sýnir:
-Á fjórum tilraunaköflum með steyptu slitlagi er kvarðað slit á bilinu 13-26 SPS (g/bíl sem er ekið einn km á á slitlaginu á negldum hjólbörðum og á hraðanum 60 km/klst).
-Á þrem tilraunaköflum með malbiksslitlagi er kvarðað slit á bilinu 17-31 SPS.
-Á einum tilraunakafla með hágæðamalbiki (blandað kalki og breyttu bindiefni) er kvarðað slit 18 SPS.
-Á fimm tilraunaköflum með endurlögn er kvarðað slit á bilinu 18-29 SPS.
Þessum niðurstöðum svipar mjög til þeirra sem fengist hafa undanfarin 15 ár eða svo á tilraunaköflum með sams konar slitlagi.
Á steyptu slitlagi er slitlagið minnst á steypu með hátt þrýstiþol og úr steinefni með lága kvarnartölu. Aðrar slitlagsgerðir (malbik, hágæðamalbik og endurlögn) eru úr steinefni með sömu eða svipaðri kvarnartölu og slit á þeim er svipað innbyrðis, þó einna minnst á hágæðamalbiki, en sú ályktun byggist á aðeins einum tilraunakafla.
Ásbjörn Jóhannesson - NSMÍ