PDF · febrúar 2007
Lárétt stífni staura

Verkefnið fjallar um lárétta stífni staura, sérstaklega við jarðskjálftaáraun. Samvirkni jarðvegs, staura og burðarvirkis er afar flókið fyrirbæri og er reynt á sem einfaldastan hátt að skilgreina hana og nota þær niðurstöður til að meta stífni stauranna. Stuðst var við mælingar sem gerðar voru á Skeiðarársandi 1974 og í Hrútafirði sumarið 2006. Með því að bera saman niðurstöður mælinganna kom í ljós að þrátt fyrir mismunandi mælistaði voru þær að gefa nokkuð svipaðar niðurstöður sem styrkti þær vonir að hægt væri að þróa aðferðarfræði sem nota mætti til að heimfæra á önnur brúarstæði og fá þannig nálgun á svörun staura í jarðvegi.

Meðaltalsgröf fyrir skúfbylgjuhraða jarðvegsins og stífni stakra staura voru gerð út frá niðurstöðum mælinganna og þau síðan notuð til að meta stífni staura við svipaðar aðstæður annars staðar. Nokkur tilbúin dæmi voru sett upp til þess að sýna hvernig nota megi aðferðarfræðina sem lýst er í verkefninu. Auk þess var gert líkan af brú í einingarforriti þar sem notast var við teikningar af fyrirhugaðri brú sem byggja á yfir Hrútafjarðará í Hrútafirði. Á hana voru keyrðar skráðar hröðunar tímaraðir frá Hellu síðan í jarðskjálftanum 17. júní árið 2000.

Niðurstöður voru í lokin dregnar saman og mat lagt á hvað hægt sé að gera í framhaldi þessa verkefnis.

Lárétt stífni staura
Höfundur

Inga Rut Hjaltadóttir - HÍ

Skrá

larett-stifni-staura.pdf

Sækja skrá