PDF · Útgáfa 06-02 — apríl 2006
Saman­burður á húmu­smæl­ingu með NaOH-að­ferð og glæðitaps­mælingu

Sótt var um styrk til Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar til verkefnisins. Verkefnið fólst í því að bera saman aðferðir til mats á magni lífrænna óhreininda í malarsýnum. Aðferðirnar sem bornar voru saman eru NaOH-aðferð með litaskala (hefðbundin aðferð), NaOH-aðferð með viðmiðunarlausn (skv. EN 1744-1) og glæðitapsmæling sem gefur þungahlutfall lífræns efnis (sbr. norska aðferð). Á þennan hátt var vonast til að unnt væri að tengja saman lit lausnar úr NaOHprófi og magn lífrænna óhreininda með beinni mælingu.

Við tilraunirnar var notuð tilbúin gróðurmold og gjallsandur. Moldin er sennilega sérstaklega húmusrík. Það þarf ekki nema 0,5% af henni til þess að ná viðmiðunarlit í NaOH lausn. Glæðitap 0,5% blöndu hefði aðeins verið um 0,52% (Mæling á 0% mold gaf 0,15% og 1% mold 0,90%).

Lífræn óhreinindi í malbiksefni skv. Alverki'95 (bls. 21) „mega ekki vera meira en 2 skv. kvarða fyrir NaOH prófunina í efnum sem ætluð eru í klæðingar og kaldblandað malbik, og ekki meira en 4 í efnum sem nota á í heitblandað malbik.“ Í þessari tilraun þurfti um 0,125-0,25% mold til þess að ná lit nr. 2 á kvarða og innan við 2% til þess að ná lit nr. 4.

Þar sem þetta rannsóknarverkefni er lítið í sniðum, er ekki hægt að draga einhlítar niðurstöður af því. Til dæmis má benda á að einungis var prófuð ein tegund af lífrænum efnum, þ.e.a.s. tilbúin gróðurmold. Einnig var einungis notuð ein gerð steinefnis, þ.e.a.s. gjallsandur sem væntanlega er með tiltölulega lágt glæðitap (0,15 %) miðað við t.d. ummynduð steinefni. Það á þó eftir að sannreyna. Niðurstöðurnar benda þó til þess að ekki þurfi að vera mikið af lífrænum óhreinindum í malarefni til að það litist í NaOH-prófi, jafnvel innan við 1 % þunga til að teljast yfir viðmiðunarmörkum. Æskilegt væri að taka fjölbreyttari sýni og prófa þau, bæði með glæðitaps- og NaOH-prófi, þannig að unnt verði að segja fyrir um með meiri vissu hver samsvörun þessara tveggja aðferða við mælingu á lífrænum óhreinindum er.

Samanburður á húmusmælingu með NaOH-aðferð og glæðitapsmælingu
Höfundur

Arnþór Óli Arason - Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins

Skrá

samanburdur-a-humusmaelingum-m.-naoh-og-glaeditapi-print.pdf

Sækja skrá