Meginmarkmið skýrslunnar er að meta hvenær sé hagkvæmt að leggja malbik á þjóðvegi í stað klæðingar, með umferð á opnunarári sem mælikvarða. Samanburðurinn byggist á hefðbundnum núvirðisreikningum yfir 35 ára tímabil og reiknivextir eru 6 %. Gert er ráð fyrir að hvort tveggja slitlagið sé úr sterku steinefni, umferð á opnunarári sé ýmist 1500, 3000 eða 5000 ÁDU, slitlagið sé ýmist lagt á burðarlag eða slitna klæðingu og að árlegur vöxtur umferðar sé ýmist 2,5 % eða enginn.
Helstu niðurstöður eru þessar:
-Klæðing virðist vera ódýrari valkostur en malbik meðan umferð á opnunarári er minni en 4000 ÁDU eða þar um bil og vöxtur í umferð er 2,5 % á ári. Mörkin færast upp í 5000 ÁDU að minnsta kosti ef umferðin breytist ekki á milli ára. Litlu máli skiptir hvort slitlagið er lagt á burðarlag eða slitna klæðingu.
-Breytingar á reiknivöxtum hafa talsverð áhrif á niðurstöður arðsemisreikninganna og lágir reiknivextir eru malbiki til framdráttar.
-Næmnigreiningar gefa til kynna að 10 % verðhækkun á slitlagsefni hækki núvirtan heildarkostnað um 6 % eða þar um bil en sama verðhækkun á öðrum kostnaðarliðum skipti litlu máli.
-Langflestir þjóðvegir með umferð sem réttlætir malbikun eru innan seilingar frá fastri malbikunarstöð. Annars staðar má leysa vandann með færanlegri malbikunarstöð.
-Kostnaður vegfarenda er vantalinn í útreikningunum, því mörgum kostnaðarliðum af þessu tagi hefur verið sleppt vegna skorts á upplýsingum. Lauslegt mat bendir þó til þess að kostnaður vegfarenda myndi verða malbiki til framdráttar ef hann væri að fullu tekinn með.
Ásbjörn Jóhannesson, Ingvi Árnason, Sigursteinn Hjartarson, Sigþór Sigurðsson og Þorsteinn Þorsteinsson - HÍ, Hlaðbær Colas, VÍ