PDF · Útgáfa 05-17 — september 2005
Saman­burður á aðferð­um til sáldur­grein­inga á smágerð­um sýnum

Samanburðarmælingar á sáldurferlum smágerðra sýna af steinefnum, annars vegar með flotvog (hydrometer), hins vegar með ljörva (laser), sem gerðar voru á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins 2004 sýndu talsverðan mismun á niðurstöðum fengnum með þessum tveim aðferðum. Mismunurinn var talinn geta stafað af ófullkominni skiptingu sýna.

Í þessari rannsókn voru tíu sýni, öll af dæmigerðum malarslitlagsefnum að einu undanskildu, sáldurgreind með flotvog og ljörva eftir að grófara efni en 250 µm hafði verið siktað frá. Að auki var gert sandgildispróf á sömu sýnum, þeim hluta sem var smærri en 2 mm. Sýni til mælinga í flotvog voru fengin með fjórðungaskiptum. Mælingar í ljörva voru með ýmsu móti, bæði þurrmælingar og votmælingar, og sýnin voru fengin með fjórðungaskiptum, misjafnlega langt reknum. Helstu niðurstöður eru þessar:
-Sandgildispróf gefur vísbendingu um hlutfall korna undir 5 µm í sýnum af jarðsetum, en er að öðru leyti gagnslítið við mat á fyllingar- og burðarlagsefnum til vegagerðar.
-Mælingar með ljörva birta yfirleitt fíngerðari sáldurferil en mælingar með flotvog, einkum þó á bilinu 10-100 µm. Af þessum sökum eru minni líkur á að mælingar með ljörva vanmeti hættu á frostnæmi en mælingar með flotvog.
-Getu ljörvans til nákvæmrar greiningar á sáldurferli má nýta betur en nú er gert með því að skipta sýnum í hvirfilkljúf (rotatory sample divider) fremur en með fjórðungaskiptum eða í venjulegum skiptara.
-Einstaka sýni geta mælst mun fíngerðari með þurrmælingu í ljörva en í mælingu með flotvog og með votmælingu í ljörva. Ástæða þessa er ókunn.

Heimildir gefa til kynna að mælingar með ljörva séu mun nákvæmari en mælingar með flotvog. Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja tilgátu þess efnis að sáldurgreiningar á sýnum af smágerðu steinefni gætu verið mun nákvæmari en nú er með því að nota ljörva í stað flotvogar við sáldurgreininguna og heppilegan tækjabúnað til að skipta smágerðum sýnum.

Samanburður á aðferðum til sáldurgreininga á smágerðum sýnum
Höfundur

Arnþór Óli Arason og Ásbjörn Jóhannesson - Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins

Skrá

samanburdur-a-adferdum-til-saldurgreininga-a-smagerdum-synumrbsk0517.pdf

Sækja skrá