PDF · Útgáfa ÍSOR-2005/033 — október 2005
Berg­grunn­skönn­un á hugs­anlegri jarðganga­leið milli lands og Eyja

Gerð er grein fyrir öflun grunnupplýsinga um jarðtæknilegar aðstæður til jarðgangagerðar milli lands og Vestmannaeyja. Rannsóknirnar fólust í flugsegulmælingum yfir Austur-Landeyjum, bylgjubrotsmælingum á landi og á sjó og athugunum á lekt jarðlaga á Heimaey. Með segulmælingunum er lagt gróft mat á hvar grynnst er á berggrunninn undir lausum setlögum, en með bylgjubrotsmælingunum er metinn hljóðhraði í jarðlögum, þykkt þeirra og dýpi niður á þétt berg. Gögn úr borholum gefa upplýsingar um lekt í jarðlögum á Heimaey og jarðlagagerð. Mælingarnar á Landeyjasandi leiða í ljós að grynnst er á berggrunn á svæðinu vestur af Krossi. Dýpið þar mælist minnst 35–40 m en er svolítið breytilegt. Hraði í berggrunni þar er mjög hár, víða yfir 5 km/s, og jafnframt eru þar áberandi toppar í segulsviði sem bendir til þess að berggrunnurinn sé að talsverðu leyti úr innskotum. Jarðlög ofan á berggrunninum í A-Landeyjum hafa lágan hljóðhraða og eru líklegast gerð að mestu úr lausum eða lítt samlímdum sandi og leir. Bylgjubrotsmælingar í sjó sýna að dýpi á fastan berggrunn á leiðinni milli lands og Eyja er allt að 170 m þar sem það er mest. Ofan þess eru allþykk setlög nema næst Heimaey þar sem móberg Vestmannaeyjamyndunarinnar er ekki hulið lausu seti. Næst Eyjum er berggrunnurinn gerður úr jarðmyndunum svipuðum og eru á Heimaey þó líklega sé hann heldur lausari og lekari. Norðurmörk móbergs Vestmannaeyjamyndunarinnar á yfirborði berggrunnsins virðast liggja um 4,7 km norðan við Heimaey. Norðan við þessi mörk taka við jarðlög efst í berggrunni sem svara til bylgjuhraða í fremur ungum, lekum og lítt ummynduðum asalthraunum. Um þykkt þeirra er ekki vitað. Jarðlagagreiningar úr borholum í nágrenni Landeyja sýna að þar er lítið um hraunlög í efstu 300 m jarðar og þau sem finnast eru fremur þunn. Jarðgöng sem lægju milli Kross í A-Landeyjum og Heimaeyjar gætu á drjúgum hluta leiðarinnar legið í blöndu af bergi úr setlögum, móbergi með innskotum í og basalthraunum. Miðað við jarðlagaskipan í næstliggjandi borholum verður að hafa í huga að jarðlög á því dýpi sem jarðgöngin myndu liggja í þyrftu ekki að vera eins og þau sem mælast í efsta hluta berggrunnsins.

Berggrunnskönnun á hugsanlegri jarðgangaleið milli lands og Eyja
Höfundur

Karl Gunnarsson, Þorsteinn Egilson, Þórólfur Hafstað, Ólafur G. Flóvenz, Sigurður Örn Stefánsson, Gunnar Hilmarsson og Sigvaldi Thordarson - ÍSOR

Skrá

vestm-gong-berggr_2005.pdf

Sækja skrá