PDF · Útgáfa 04-10 — september 2004
Sáldur­grein­ing smárra korna í steinefna­sýnum

Meginefni skýrslunnar er samanburður á tveim aðferðum til að greina sáldurferil smárra korna í steinefnasýnum. Greiningaraðferðirnar eru flotvogar- (hydrometer-)mæling og kornastærðamæling með ljörva (laser).

Alls voru greind 47 sýni, flest af dæmigerðum malarslitlagsefnum. Samanburðurinn nær aðeins til þess hluta sýnanna sem smýgur 125 µm sikti. Öll sýnin voru greind með flotvogaraðferðinni og þurrgreiningu í ljörva, en að auki voru 14 sýni greind með votgreiningu í ljörva. Skiptingu sýna í smærri hluta til prófunar var ábótavant, sem
kann að hafa ýkt mismun á niðurstöðum mismunandi greiningaraðferða.

Helstu niðurstöður eru þessar:
Sáldurgreiningu með flotvog ber ekki sérlega vel saman við greiningu í ljörva, bil milli sáldurferla er allt upp í 15-20 prósentustig þar sem hann er mestur. Sama er að segja um niðurstöður þurr- og votgreiningar í ljörva, þó er mismunurinn heldur minni eða 10-15 prósentustig. Þessi frávik geta að einhverju leyti stafað af því að sýnunum var ekki skipt eftir ströngustu reglum.
Að jafnaði mælist leirinnihald eilítið hærra með flotvog en ljörva. Báðar aðferðir mæla svipað syltarinnihald.
Mælingar á sumum sýnanna benda til þess að mælingar með flotvog geti verið óáreiðanlegar á grófari kornum en 30-40 µm. Frávika af þessu tagi er getið í heimildum.

Þrátt fyrir þennan mismun á niðurstöðum eftir mæliaðferðum er hann minni en svo að líklegt geti talist að hann muni ráða úrslitum þegar notagildi fyllingar og burðarlagsefna er metið samkvæmt verklýsingum Vegagerðarinnar. Frekari samanburðarmælingar af þessu tagi samkvæmt nákvæmari verklýsingum eru í undirbúningi.

Sáldurgreining smárra korna í steinefnasýnum
Höfundur

Arnþór Óli Arason og Ásbjörn Jóhannesson - Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins

Skrá

saldurgreining-smarra-korna-i-steinefnasynum.pdf

Sækja skrá