Vetrar­þjón­usta

Vegagerðin sinnir vetrarþjónustu á um 5.000 km af þeim 12.000 km sem teljast til þjóðvega landsins. Vegagerðin sér um og greiðir fyrir allan snjómokstur og hálkuvarnir á þeim leiðum sem hún hefur umsjón með. Í flestum tilvikum eru það verktakar sem sinna þjónustunni.

 

Vetrarþjónusta eftir landshlutum

Unnið er að því að uppfæra vinnureglur vetrarþjónustu á nýjan vef en þangað til er hægt að nálgast þær á þessari slóð


Snjómokstur

Vegagerðin sér um allan snjómokstur á þjóðvegum og greiðir allan kostnað við mokstur þeirra leiða sem sýndar eru á vetrarþjónustukorti Vegagerðarinnar og í samræmi við þær reglur sem þar gilda.


Í flestum tilvikum eru það verktakar sem sinna vetrarþjónustu. Þá daga sem þjónustu er sinnt með reglubundnum hætti er stefnt að því að snjómokstri og hálkuvörnum sé lokið á hverju svæði fyrir sig áður en morgunumferðin hefst. Vinnureglur, sem m.a. eru byggðar á umferðarþunga og mati á aðstæðum, segja til um hver þjónustan er á hverjum vegi og hálkuvörnum er t.d. ekki sinnt á vegakerfinu öllu.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar skiptist fyrst og fremst í snjómokstur, hálkuvarnir og eftirlit. Snjómokstur er áþreifanlegt verkefni sem allir þekkja en hálkumyndun og varnir við hálku er mun flóknara fyrirbæri. Hálka getur verið ófyrirsjáanleg og brostið á með mjög stuttum fyrirvara.


Upplýsingavefur Vegagerðarinnar

Á upplýsingavef Vegagerðarinnar, www.umferdin.is , eru ávallt nýjustu upplýsingar um veður og færð. Þar má sjá hvernig vetrarþjónustu er sinnt á hverjum vegi fyrir sig. Ef smellt er á einstaka veg, koma upp ýmsar upplýsingar sem tengjast viðkomandi vegi, svo sem upplýsingar um hvernig vetrarþjónustu er sinnt á veginum.

Einnig er hægt að hringja í 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, til að fá upplýsingar. 1777 er opinn á milli kl. 6:30 – 22:00 alla daga vikunnar.

 


Þjónustuflokkar í vetrarþjónustu

Vetrarþjónustu er sinnt í nokkrum flokkum. Á vefnum umferðin.is má sjá hvernig vetrarþjónustu er sinnt á hverjum vegi fyrir sig. Ef smellt er á einstaka veg, koma upp ýmsar upplýsingar sem tengjast viðkomandi vegi, svo sem upplýsingar um hvernig vetrarþjónustu er sinnt á veginum.


Snjóflóðaviðvaranir með SMS

Súðavíkurhlíð, Flateyrarvegur, Siglufjarðarvegur, Fagridalur, Raknadalshlíð og Ólafsfjarðarmúli.

Vegagerðin hefur viðvörunarkerfi með SMS skeytum um snjóflóða- og hrunhættu til vegfarenda. Sendar eru upplýsingar um hættu á þjóðvegum 61 á Súðavíkurhlíð, 64 á Flateyrarvegi,  76 á Siglufjarðarvegi um Almenninga,  82 á Ólafsfjarðarmúla, 01 um Fagradal og 62 um Rakndadalshlíð.

Viðvaranirnar eru m.a. byggðar á snjóflóðaspá sem Veðurstofan gerir fyrir Vegagerðina um þessa vegakafla.  Um er að ræða eftirfarandi stig:

Vegna snjóflóðahættu:

A. varað er við snjóflóðahættu á næstu klukkustundum.

B. lýst yfir óvissustigi,  sem þýðir að snjóflóðahætta er viðvarandi og vegfarendur hvattir til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

C. lýst yfir hættustigi, veginum lokað.

D. hættustigi aflýst og vegurinn opinn.

Vegna sigs vegar í Almenningum á Siglufjarðarvegi:

B.   lýst yfir hættustigi 1, vegurinn opinn 

C.  lýst yfir hættustigi 2, veginum lokað

D.  hættustigum aflýst, vegurinn opnaður

 

Hægt er að skrá sig til að fá SMS í símann með því að senda póst á umferd@vegagerdin.is eða með því að hringja í síma 1777.


Leiðbeiningar og reglur um Vetrarþjónustu