2. Reglur um vetrarþjónustu
Vegagerðin sér um allan snjómokstur á þjóðvegum og greiðir allan kostnað við mokstur þeirra leiða sem sýndar eru á vetrarþjónustukorti Vegagerðarinnar og í samræmi við þær reglur sem þar gilda. Vegagerðin greiðir ekki kostnað við snjómokstur sem til hefur verið stofnað án hennar samþykkis.
Þegar vegur er opnaður er stefnt að því að hann nái að þjóna venjulegri morgunumferð á hverju svæði. Lengd þjónustutíma er háð umferð á hverjum stað og er skilgreindur í vinnureglum í vetrarþjónustu.
Vegagerðin getur frestað mokstri ef veður er óhagstætt, eins og í snjókomu eða skafrenningi, eða þegar slíkt veður er fyrirsjáanlegt. Er þá mokað næsta dag sem veður leyfir.
Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu.
Þessa vegi er heimilt að moka með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki þrisvar sinnum í viku, meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Vegagerðin greiðir þá helming kostnaðar þegar beðið hefur verið um moksturinn og greiðsla mótaðila hefur verið tryggð, enda komi moksturinn fleiri vegfarendum til góða en þeim, sem um hann biður. Óskir sveitarfélaga um slíkan mokstur skal að jafnaði ganga fyrir óskum einstaklinga.
Á vegum með tveggja daga mokstri er heimilt að bæta við einum degi í helmingamokstri.
Regla þessi gildir aðeins að býlum með vetursetu. Kostnaður við allan annan mokstur, umfram það sem ofangreindar reglur segja til um, skal greiddur af viðkomandi sveitarfélagi eða þeim sem óska eftir viðbótarmokstri.
Stjórnun vetrarþjónustu fer fram í viðkomandi sveitarfélagi að undangengnum samningum.
Verkefni sveitarfélagsins getur verið með tvennum hætti:
Vetrarþjónusta alfarið í umsjón sveitarfélaga:
Verkefni sveitarfélagsins er allur snjómokstur, þ.e. flutningur á snjó og hálkuvarnir, þ.m.t. kostnaður við innkaup hálkuvarnaefna.
Hálkuvörn er skv. skilgreindum vinnureglum og í samræmi við þjónustuflokk vegarins. Möguleg hálkuvarnarefni eru sandur, saltblandaður sandur, salt og/eða saltupplausn (pækill).
Einungis hreinsun vegamóta í umsjón sveitarfélaga:
Vegagerðin sér um snjómokstur en sveitarfélagið sér um hreinsun vegamóta og flutning á snjó.
G-regla: Heimilt er að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Hausttímabil er skilgreint til 1. nóvember og vortímabil frá 20. mars. Ástandið er skilgreint “snjólétt” þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl.
Heimilt er að moka vegi sem falla undir G-reglu einu sinni í viku fram til 5. janúar á kostnað Vegagerðarinnar og eftir það einu sinni í viku að beiðni og gegn helmingagreiðslu frá sveitarfélagi þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki og/eða þegar kostnaður við þann mokstur er að jafnaði ekki meiri en þrefaldur sá kostnaður sem til fellur þegar leiðin telst snjólétt. Vegagerðin metur hvort viðkomandi mokstur sé raunhæfur m.t.t. notagildis og kostnaðar.
3. Innanhússreglur Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu
Hafa ber í huga að reglur þessar eru viðmiðunarreglur og ber að líta á þær sem slíkar. Vegagerðin ber enga ábyrgð á kostnaði eða tjóni sem upp kann að koma ef ekki tekst að framfylgja ofangreindum reglum.
Starfsmenn í umferðarþjónustu eða vetrarþjónustu skulu tafarlaust tilkynna vaktstöð um mannlausar bifreiðar á fáförnum leiðum ef ætla má, að bifreiðarnar hafi verið yfirgefnar vegna veðurs, ófærðar eða bilunar. Stjórnstöð skal koma boðum áfram til Neyðarlínu 112.
Starfsmaður í snjómokstri sem kemur að snjóflóði eða verður var við fallandi snjóflóð svo og vatnavexti eða skemmdir á vegmannvirkjum vegna vatnsflóða skal strax láta vaktstöð vita og hinkra við þangað til hann fær frekari fyrirmæli.