Vegagerðin kynnir hér fyrirhugaðar framkvæmdir á tæplega 7 km löngum kafla á Skagavegi (745), milli Harrastaða og Brunanámu á Skagaströnd í Húnabyggð. Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar. Engin breyting verður á legu hans.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur á svæðinu og stuðla að greiðari samgöngum á Skagaströnd. Framkvæmdin er í samræmi við markmið samgönguáætlunar um að auka umferðaröryggi.
Kynning fer fram í Skipulagsgáttinni og er kynningartími frá 14 mars til 17 apríl 2025. Umsagnir munu birtast undir málinu jafnóðum og þær berast á eftirfarandi slóð: https://skipulagsgatt.is/issues/2025/244.
Áætluð efnisþörf nýs vegar er um 97 þús. m3og er efnistaka fyrirhuguð úr þremur opnum námum í nágrenni við fyrirhugað framkvæmdasvæði.
Kostnaðaráætlun er um 630 millj. kr. og er framkvæmdin fjármögnuð með fjárveitingu á samgönguáætlun til tengivega þar sem markmiðið er að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðalitla tengivegi.
Vegagerðin áætlar að vegurinn verði endurbyggður á árunum 2025 – 2026.
Framkvæmdin hefur verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Skipulagsstofnun hefur óskað eftir að eftirtaldir aðilar veiti umsögn um málið:
Húnabyggð, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun, Umhverfis- og orkustofnun og Rarik. Frestur þeirra til að skila umsögnum til Skipulagsstofnunar er til 17. apríl og er ákvörðunar Skipulagsstofnunar að vænta 8. maí 2025.
Allir geta fylgst með málinu á Skipulagsgáttinni og séð þegar nýjar umsagnir berast. Þegar kynningartíma lýkur mun Skipulagsstofnun hafa samband við framkvæmdaraðila varðandi næstu skref.