Vegagerðin kynnir hér framkvæmd í Djúpavogshreppi. Fyrirhugað er að taka efni úr opinni námu, Svartagilslæk (A-15) í landi Hvannabrekku í Berufirði, vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda á Hringvegi (1) um Berufjörð. Náman er fast við Hringveg (1) um Berufjörð og er á aðalskipulagi Djúpavogshrepps þar sem hún ber heitið A-15 Svartagilslækur.
Fyrirhugað er að taka allt að 284.000 m3 á allt að 96.000 m2 svæði vegna lagningar Hringvegar um Berufjörð.
Náman Svartagilslækur (A-15) í landi Hvannabrekku í Berufirði í sveitarfélaginu Djúpavogshreppi var kynnt í matsskýrslu fyrir Axarveg (939), Hringveg (1) í Skriðdal og Hringveg (1) um Berufjarðarbotn sem gefin var út í mars 2011. Álit Skipulagsstofnunar barst þann 15.04.2011.
Í febrúar 2013 kannaði Vegagerðin matsskyldu breyttrar legu Axarvegar milli Háubrekku og Reiðeyrar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki matsskyld barst þann 20. mars 2013.
Vegagerðin sótti um framkvæmdaleyfi til Djúpavogshrepps þann 15. september 2016 vegna framkvæmda á Hringvegi í Berufirði. Framkvæmdaleyfi barst þann 22. september 2016 og framkvæmdir hófust sumarið 2017 í kjölfar útboðs.
Við fyllingar vegna þverunar Berufjarðar varð mikið sig á efni í sjófyllingu sem ekki var fyrirséð áður en framkvæmdir hófust. Vegagerðin hafði samráð við Umhverfisstofnun og Djúpavogshrepp um aukna efnistöku úr námunni Svartagilslæk (A-15). Þann 8. nóvember 2018 var sótt um framkvæmdaleyfi hjá Djúpavogshreppi vegna aukinnar efnistöku. Svar sveitarfélagsins var á þá leið að Vegagerðin þyrfti að bera breytingar sem orðið hafa á framkvæmdinni frá því að umhverfisáhrif hennar voru metin undir Skipulagsstofnun og óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi matsskyldu þeirra, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Vegna framkvæmda sem unnið er að á svæðinu og eru í uppnámi, er hér kynnt breyting á efnistöku úr námunni Svartagilslæk (A-15) í Berufirði í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.